Sveitarfélög í kröggum

Sveitarfélög standa misvel í kreppunni.
Sveitarfélög standa misvel í kreppunni. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að sveitarfélög sem hafa átt við rekstrarvanda að stríða á undanförnum árum muni lenda í verulegum vandræðum á næstunni. Þetta kom fram í máli hans á fjármálaráðstefnu sambandsins í morgun.

Ef sveitarfélag kemst í greiðsluþrot skal sú staða tilkynnt til eftirlitsnefndar og leitað samninga lánardrottna og ríkisvald um hvernig megi rétta stöðu viðkomandi sveitarfélags af. Gangi það ekki er hægt að fyrirskipa sveitarstjórn að leggja allt að 25% álag á útsvar og fasteignaskatt innan sinna vébanda. Þá er hægt að svipta sveitarstjórnina fjárforræði, skipa fjárhaldsstjórn, setja sveitarfélagið í greiðslustöðvun og leita samninga við nágrannasveitarfélög þess um sameiningar. Karl sagði fundargesti rétt geta ímyndað sér þann grát og gnístran tanna sem yrði uppi við slíkar aðstæður.

Hann nefndi að í samningi íslenska ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,  um alþjóðlega fjárhagsaðstoð, séu ákvæði um útgjöld hins opinbera, sem skuldbinda sveitarfélögin að einhverju leyti. Þetta sagði hann ekkert hafa verið rætt við sveitarfélögin. Hann sagði nauðsyn á nýjum og betri vinnubrögðum ríkisins gagnvart sveitarfélögum almennt. Það hafi sýnt sig að ekki dugi að gera samninga á milli sveitarfélaga og ríkis um samskiptin þar á milli. Þau þurfi að lögbinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka