Skref í átt að ESB væru jákvæð

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings segir, litið yrði jákvætt á hvert það skref sem Ísland stígur í átt að Evrópusambandsaðild. Það myndi samt ekki nægja til að hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, sem hefur lækkað töluvert að undanförnu.

Fitch lækkaði einkunn Íslands í BBB í október í kjölfar þess að íslenska bankakerfið hrundi. Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch í Lundúnum, segir við Reutersfréttastofuna í dag að aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé nauðsynleg til að koma á stöðugleika í gjaldeyrismálum Íslands.

„Til lengri tíma litið þarf Ísland líklega að stefna að aðild að Evrópusambandinu og evru," segir Rawkins. „Á hinn bóginn þarf landið nú að einbeita sér að gjaldmiðlinum og efnahagsmálunum... og sú staðreynd, að horfur varðandi einkunn Íslands séu neikvæðar endurspegli hve málið er alvarlegt. Án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er framtíða Íslands ekki björt."

Hann segir, að líklega myndu líða mörg ár þar til Ísland gæti tekið upp evru en aðildarviðræður við Evrópusambandið myndu ekki taka langan tíma þar sem Íslendingar hafa þegar lögfest stóran hluta af löggjöf ESB.

„Fiskveiðiréttindin hafa alltaf verið hindrun á leið Íslands til ESB en í ljósi atburða nú kunna Íslendingar að taka það til endurskoðunar. Það myndi hins vegar ekki breyta neinu um lánshæfismatið á næstunni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert