Þriðji áfangi Hellisheiðarvirkjunar tekinn í notkun

mbl.is/OR

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, tók í dag formlega í notkun tvær nýjar vélasamstæður í Hellisheiðarvirkjun. Með því er afl virkjunarinnar orðið 213 megavött, sem gerir hana að þriðju aflmestu virkjun landsins í raforku. Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, segir að fullbúin verði virkjunin sú afkastamesta í landinu.

Fjöldi fólks, þar á meðal forseti Íslands, var viðstaddur þegar ræstar voru tvær 45 megavatta gufuaflstúrbínur í Hellisheiðarvirkjun. Þetta er þriðji áfangi uppbyggingarinnar.

Undir lok næsta árs hefst framleiðsla á heitu vatni í virkjuninni og árið 2010 er ráðgert að síðasti áfanginn í raforkuframleiðslu virkjunarinnar verði tekinn í notkun. Þá verður uppsett afl hennar í raforku 303 megavött og gert er ráð fyrir að afl heitavatnsframleiðslunnar verði aukið í nokkrum áföngum á næsta áratugum upp í 400 megavött. Þá verður hún aflmesta virkjun landsins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri gerði að umtalsefni gott orðspor Íslendinga í orkumálum og hvernig það geti nýst þjóðinni til framdráttar við erfiðar aðstæður. Hún minnti á að margar grannþjóðir okkar þurfi að fást tvö stór verkefni um þessar mundir, efnahagssamdrátt og loftslagsmálin. Íslendingar hafi hinsvegar umbylt sínu orkukerfi á síðustu öld í átt til endurnýjanlegrar orku og séu enn að.

55 milljóna gjaldeyrissparnaður á dag

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, minntist þess í ávarpi sínu að það hafi verið í kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar að markviss uppbygging hitaveitu hófst hér á landi í Reykjavík. Framsýni ráðamanna þá, væri að spara okkur 150 milljónir Bandaríkjadala á ári í kyndikostnað. Værum við að nota olíu til húshitunar enn þann dag í dag, þyrftu íbúar höfuðborgarsvæðisins að greiða 55 milljónum króna meira í kyndikostnað á degi hverjum.

Áfangar Hellisheiðarvirkjunar

Jarðvarmavirkjanir Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið byggðar í áföngum því samhliða orkunýtingu fást auknar upplýsingar um afkastagetu jarðhitageymisins sem nýttur er. Fljótlega eftir að markvissar rannsóknarboranir hófust við Kolviðarhól kom í ljós að svæðið býður upp meiri nýtingu en upphaflega var áformuð.

Þessir eru áfangar Hellisheiðarvirkjunar:
    ·         2006 voru tvær 45 MW háþrýstivélar teknar í notkun.
    ·         2007 var 33 MW lágþrýstivél tekin í notkun.
    ·         Nú eru tvær 45 MW háþrýstivélar teknar í notkun.
    ·         2009 verðu hafin framleiðsla á heitu vatni sem nemur 133 MW.
    ·         2010 verða tvær 45 MW háþrýstivélar teknar í notkun.
    ·         Síðar, eftir því sem eftirspurn býður, verða tveir áfangar heitavatnsframleiðslu teknir í notkun, 133 MW hvor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert