Fermingarbörn söfnuðu 7,5 milljónum króna

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Þrátt fyrir erfitt ástand á Íslandi er gjafmildi Íslendinga söm við sig. Um 3000 fermingarbörn um land allt gengu í hús 3. og 4. nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar.

Fermingarbörnin söfnuðu 7,5 milljónum króna til vatnsverkefna í Afríku. Enn eiga nokkrar kirkjur eftir að leggja inn svo ekki er ólíklegt að heildarinnkoman verði svipuð og í fyrra sem var metár, eða um 8 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.

Þetta var í 10. sinn sem efnt er til söfnunarinnar. Fyrir söfnunina sáu börnin myndir af munaðarlausum systkinahópi í Úganda og daglegri lífsbaráttu þeirra m.a. hvernig þau sækja vatn í drullugt vatnsból. Mörg þeirra hittu David og Christine frá Úganda sem sögðu frá uppvexti í fátækt og möguleikum sínum í lífinu og hvernig stuðningur frá Íslandi hefur skilað sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert