Risavaxnar millifærslur hjá Virðingu hf

Forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá Virðingu hf. er grunaður um stórfelld auðgunarbrot og brot á lögum um peningaþvætti. Hann er meðal annars grunaður um að hafa millifært mörg hundruð milljónir króna frá Virðingu inn á bankareikning samverkamanna sinna og um að hafa misnotað trúnaðarupplýsingar til að eiga viðskipti sem teljast óeðlileg miðað við stöðu mannsins.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit hjá Virðingu snemma á föstudag. Alls fóru tólf manns á vegum deildarinnar inn í fyrirtækið og lögðu hald á ýmis gögn sem talin eru geta varpað skýrara ljósi á málið. Rannsóknin beinist ekki að Virðingu heldur meintum brotum forstöðumannsins. Hann er staddur í Dubai sem stendur og hefur enn ekki verið handtekinn né yfirheyrður. Maðurinn er væntanlegur til landsins í dag. Tveir aðrir menn voru handteknir og yfirheyrðir á föstudag vegna málsins. Annar er bróðir forstöðumannsins og starfar hjá stóru íslensku fjárfestingafélagi. Hinn er almennur starfsmaður hjá opinberu fyrirtæki.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á rannsóknin upptök sín í ábendingu um brot á lögum um peningaþvætti. Sú ábending vísaði leiðina að einkahlutafélagi sem mennirnir þrír tengdust. Rannsóknin beinist nú að grunsamlegum millifærslum forstöðumannsins á hundruðum milljóna króna af fjármunum sem voru í vörslu Virðingar inn á persónulega bankareikninga samverkamanns hans. Sá er almennur starfsmaður hjá opinberu fyrirtæki og gat ekki skýrt hvernig hann hafði komist yfir mörg hundruð milljónir króna.

Hluti upphæðanna var síðan færður til baka á persónulegan bankareikning forstöðumannsins. Auk þess er hann grunaður um að hafa misnotað trúnaðarupplýsingar sem hann bjó yfir vegna stöðu sinnar til að eiga óeðlileg gjaldeyrisviðskipti.

Hann seldi líka gjaldeyri skömmu áður en Virðing gerði slíkt og keypti svo aftur skömmu síðar þegar gengi gjaldmiðlanna hafði lækkað aftur. Með því nýtti hann sér innherjaupplýsingar um hvenær Virðing hygðist selja gjaldeyri og hafði af fjárhagslegan ávinning. Peningaþvættishluti rannsóknarinnar beinist að þeim aðferðum sem mennirnir notuðu til að koma þessum ávinningi undan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert