Gæsluvarðhaldskröfu hafnað

Dómari hafnaði í dag kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir manni sem handtekinn var vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og brot á lögum um peningaþvætti.

Maðurinn er forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá Virðingu hf. Hann var handtekinn við komuna til landsins í gær og farið fram á gæsluvarðhald yfir honum til næstkomandi föstudags.

Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa millifært mörg hundruð milljónir króna frá Virðingu inn á bankareikning samverkamanna sinna og um að hafa misnotað trúnaðarupplýsingar til að eiga viðskipti sem teljast óeðlileg miðað við stöðu mannsins.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit hjá Virðingu snemma á föstudag. Hald var lagt á ýmis gögn sem talin eru geta varpað skýrara ljósi á málið. Rannsóknin beinist ekki að Virðingu heldur meintum brotum forstöðumannsins.

Tveir aðrir menn voru handteknir og yfirheyrðir á föstudag vegna málsins og var annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. nóvember. Honum verður líklega sleppt síðar í dag þar sem forsendur fyrir gæsluvarðhaldi eru brostnar að sögn saksóknara hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Saksóknari segir að krafan hafi verið sett fram til að tryggja rannsóknarhagsmuni en dómara hafi ekki þótt nægilega leitt í ljós að forsendur fyrir gæsluvarðhaldi væru fyrir hendi. Rannsókn málsins heldur áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert