Rjúpnaskyttu leitað í fimbulkulda í nótt

Enn er að bætast í hóp björgunarsveitarmanna sem eru við leit að rjúpnaskyttu sem saknað hefur verið síðan í hádeginu í dag. Að sögn Jóns Inga Sigvaldasonar, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, er gert ráð fyrir að leitað verði í alla nótt og að um hundrað og fimmtíu manns taki þátt í leitinni.

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út um miðjan dag í dag til að leita að manni við Skáldabúðir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Alls voru þá á sjötta tug manna sem leituðu með aðstoð spor- og víðavangshunda, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar til þátt í leitinni. Síðan hafa fleiri björgunarsveitir verið að bætast í hóp leitarmanna.

Leitarsvæðið erfitt yfirferðar með mikið af giljum og auk þess er fimbulkuldi á svæðinu. 

Mannsins hefur verið saknað frá því um hádegi. Hann fór á rjúpnaveiðar ásamt félögum sínum í morgun og höfðu þeir ráðgert að hittast í hádeginu. Þegar hann skilaði sér ekki kölluðu félagar hans eftir aðstoð.

Að sögn Jóns Inga Sigvaldasonar, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, er rjúpnaskyttan vel búinn og vön fjallaferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert