Rúmlega 1100 tilkynningar á þremur árum

Peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra bárust alls 496 tilkynningar um grunsamleg viðskipti í fyrra. Nær allar tilkynningarnar bárust frá fjármálafyrirtækjum eða 491. Í fyrra leiddi engin tilkynning um grun um peningaþvætti til saksóknar af hálfu efnahagsbrotadeildar.

Í ársskýrslu peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2007, sem nýlega kom út, segir að af þeim 496 tilkynningum frá tilkynningarskyldum aðilum, þar sem grunur var um peningaþvætti hafi nær allar eða 491 borist frá fjármálafyrirtækjum. Frá íslenskum stjórnvöldum bárust 2 tilkynningar og 3 frá erlendum aðilum eða öðrum aðilum. Engin tilkynning barst vegna gruns um fjármögnun hryðjuverka.

Af þessum 496 tilkynningum voru 23 tilkynningar rannsakaðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Upplýsingar úr öðrum tilkynningum voru yfirleitt sendar Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eða annarri staðarlögreglu, þar sem þær voru notaðar við rannsóknir mála.

Tvö mál voru tekin til formlegrar rannsóknar, en í öðru þeirra lágu fyrir átta tilkynningar. Á árinu 2007 leiddi engin tilkynning um grun um peningaþvætti til saksóknar af hálfu efnahagsbrotadeildar.

Samkvæmt málaskrá lögreglunnar voru fjögur peningaþvættismál til rannsóknar hjá lögregluembættum, þar af eitt hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Á bak við annað málið voru átta tilkynningar og er rannsókn þess ekki lokið. Samkvæmt málaskrá ákæruvaldsins voru tvö peningaþvættismál í ákærumeðferð á árinu 2007. Enginn hæstaréttardómur féll á árinu 2007 þar sem fjallað var um peningaþvættisbrot og einungis einn héraðsdómur.

Fyrstu lög um aðgerðir gegn peningaþvætti tóku gildi 1. júlí 1993. Fyrsta tilkynningin um grun um peningaþvætti barst ríkislögreglustjóra árið 1994 en það ár barst einungis þessi eina tilkynning.

Tilkynningum hefur stöðugt fjölgað á hverju ári síðan þá og hefur heildarfjárhæð þeirra viðskipta sem liggja á bak við tilkynningar sífellt verið að hækka. Árið 1995 bárust t.d. 9 tilkynningar vegna viðskipta sem ná um samtals tæplega 50 milljónir króna.

Árið 2007 bárust peningaþvættisskrifstofu alls 496 tilkynningar vegna grunsamlegra viðskipta að fjárhæð samtals rúmlega 961 milljón króna.

Á tímabilinu frá 1994 til ársins 2007 hefur fjöldi tilkynninga því rúmlega 55-faldast og heildarfjárhæð þeirra viðskipta sem tilkynnt er um hefur nánast 20-faldast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert