Þeir sem töpuðu fái skattaafslátt

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason hefur sent formlega fyrirspurn til ríkisskattstjóra. Hann spyr hvort þeir sem töpuðu á peningamarkaðssjóðum bankanna geti sóst eftir skattaívilnun.

Á vefsíðu talsmannsins, www.tn.is,  vísar hann í lög um tekjuskatt þar sem segi að skattstjóri skuli taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns „[e]f gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa frá atvinnurekstri hans.“

Í bréfi bréfi talsmannsins stendur: „Eins og kunnugt er hefur talsmaður neytenda haft til skoðunar undanfarnar vikur réttarstöðu neytenda vegna slita á peningamarkaðssjóðum í kjölfar bankahruns. Hefur neytendum verið tilkynnt um fullnaðargreiðslu og þ.a.l. tap en talsmaður neytenda hefur þó lýst opinberlega fyrirvara þar að lútandi. Tilkynnt tap á kröfum á sjóðina nemur í mörgum tilvikum verulegum fjárhæðum en að svo stöddu er vart tilefni til þess að rekja einstök dæmi um fjárhæðir. Þá er tilurð slíkra krafna með ýmsum hætti og má í dæmaskyni nefna greiddan arfshlut, söluandvirði íbúðarhúsnæðis og annað sem ekki stafar frá atvinnurekstri tjónþola.“

Tap þeirra sem áttu sparifé sitt í peningarmarkaðssjóðum er mismikið eftir bönkum. Þeir sem áttu í innlenda sjóði Landsbankans töpuðu rúmlega þriðjungi. Þeir sem áttu í Kaupþingi og Glitni töpuðu um fimmtán prósentum. Aðrir bankar, s.s. Spron, Byr, MP fjárfestingar og Íslensk verðbréf, hafa ekki gert upp sjóðina sína og krefjast þess að ríkið kaupi skuldabréf úr sjóðunum, eins og gert var í ríkisbönkunum, til að lágmarka tap sjóðseigenda.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert