Samgangur eykur líkur á smiti í síld

Kristinn

Sérfræðingar telja líklegrar skýringar á mikilli útbreiðslu sýkingar í síld að leita í hrygningartíma síldarinnar síðsumars. Þá sé stofninn á tiltölulega afmörkuðu svæði og einnig við fæðuöflun í kjölfar hrygningar. Síðan hafi skapast einhverjar þær aðstæður í náttúrunni á síðustu vikum sem gerðu það verkum að sýkingin gaus upp nánast samtímis á mörgum svæðum frá Húnaflóa vestur um til Vestmannaeyja.

Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, útilokar ekki að sníkjudýrið hafi verið komið í auknum mæli í síldina síðasta vetur eða í 1-2% fiska. Í náttúrunni telji vísindamenn hins vegar ekki óeðlilegt að sníkjudýrið sé í 1-2 prómill síldar. „Ég útiloka ekki að sýkingin hafi verið komin upp fyrir náttúrulegan staðal síðasta vetur og það hafi auðveldað þennan hraða framgang sýkingarinnar í haust,“ segir Gísli.

Hann segir að hjarðir síldarinnar hafi gengið saman á einhverjum tíma, hugsanlega í kringum hrygningu. Hann bendir á dæmi af laxastofnum, en sumarið 2007 hafi orðið mikil þráðormasýking í laxi í íslenskum ám og á sama tíma í laxi sem gekk í ár í Skotlandi, Wales og Englandi. „Þessir stofnar hafa greinilega gengið á sameiginlegu beitarsvæði yfir veturinn, sem síðan slitnaði þegar voraði og hver stofn fór í sína átt. Á sama tíma hafi ekkert slíkt smit orðið í laxi í Færeyjum, Noregi, á austurströnd Bandaríkjanna og í Kanada.

Hann segir meðgöngutíma sníkjudýrsins fara eftir umhverfisáhrifum. Með auknum hita í höfunum að meðalhiti um 1,5 gráður eigi sníkjudýrin aukna möguleika. „Síðan springur þetta framan í okkur allt í einu, en þá er síld jafnvel farin að drepast í torfum og þá leysist úr læðingi enn meira smitefni,“ segir Gísli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert