Mótmæla innheimtuaðferðum

Sturla Jónsson og fleiri bílstjórar á fundi með Halldóri Jörgenssyni, …
Sturla Jónsson og fleiri bílstjórar á fundi með Halldóri Jörgenssyni, forstjóra Lýsingar, í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er engin hemja hvernig komið er fram við menn í þessu árferði. Það er verið að taka bíla af bílstjórunum, en um leið að krefja þá um greiðslur upp á margfalt hærri upphæðir en þeir raunverulega skulda,“ segir Sturla Jónsson vörubílstjóri sem fer fyrir hópi vörubílstjóra sem hyggjast mótmæla í húskynnum Lýsingar í dag.

Sturla segir Lýsingu, sem lánað hefur mörgum bílstjórum fyrir kaupum á vöru- og flutningabílum, ekki gæta sanngirnis þegar kemur að innheimtu. Nýleg dæmi sanni það.

„Við höfum dæmi um það að ætlaður viðgerðarkostnaður upp á tæplega milljón sé færður yfir á bílstjóra, sem hrein viðbót við það að taka bíla af fólki. Sem er auðvitað það sama og að svipta bílstjóra atvinnu sinni fyrirvaralaust. Það er ekki hægt að sætta sig við að bílstjórar þurfi að bera milljóna viðbótarkostnað við það eitt að Lýsing leysi til sín bíla sem ekki hefur verið greitt af í mánuð eða tvo. Það er eitthvað bogið við það. Við höfum lært það að ekkert annað dugir en að láta vel í okkur heyra á réttum stöðum. Þó viðbrögðin að hálfu þeirra sem taka eiga mótmælin til sín mættu vera betri.“

Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, situr nú fund með vörubílstjórum þar sem farið er yfir hlutina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert