Framfaraflokkurinn fær listabókstafinn A

Sturla Jónsson er kominn í pólitík.
Sturla Jónsson er kominn í pólitík. mbl.is/Kristinn

Framfaraflokkurinn, sem var stofnaður í haust, hefur fengið listabókstafinn A. Sturla Jónsson, atvinnubílstjóri og formaður flokksins, segist hafa gert sér ferð í dómsmálaráðuneytið í dag til að sækja bókstafinn.

Allir stjórnmálaflokkarnir urðu að leggja blessun sína yfir þetta, sem þeir gerðu. Sturla segist í samtali við mbl.is hafa lagt inn umsókn 28. nóvember sl. með formlegum hætti og höfðu flokkarnir frest til 10. desember að gera athugasemdir. 

„Mér líst vel á að fara af stað. Maður finnur fyrir miklum stuðningi,“ segir Sturla.

 Aðspurður um helstu baráttumál flokksins segir Sturla að mikilvægast sé að Íslendingar losi sig við krónuna og taki upp aðra mynt. „Svo fólk geti haft sama kaupið í dag og á morgun. Og stjórnvöld geti ekki leikið sér svona með líf fólksins í landinu.“

Þá segir hann að flokkurinn muni berjast fyrir því að fækka biðlistum á elliheimili.

Þá mótmælir hann þeim niðurskurði sem stjórnvöld hafi boðað. „Það er ekkert skorið niður sem kemur að þeim sjálfum beint,“ segir Sturla.

Næstu skref er að auglýsa flokkinn og vinna að uppbyggingu hans að sögn Sturlu. „Maður þarf bara að spila rétt úr því litla sem maður hefur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert