Skattamáli Jóns Ólafssonar vísað frá

Myndin var tekin í júlí sl. þegar málið var þingfest …
Myndin var tekin í júlí sl. þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá máli ákæruvaldsins á hendur Jóni Ólafssyni, Ragnari Birgissyni og Hreggviði Jónssyni en þeir voru ákærðir vegna meiriháttar skattalagabrota.

Ákært var vegna eigin skattskila þremenninganna og vegna skattskila Norðurljósa, samskiptafélags hf., Skífunnar hf. og Íslenska útvarpsfélagsins hf.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í febrúar 2002 rannsókn á skattskilum Jóns Ólafssonar og bókhaldi og skattskilum Norðurljósa,  Skífunnar og Íslenska útvarpsfélagsins. Tók rannsóknin til áranna 1996 til 2001 og byggði á athugun á skattframtölum Jóns og allmargra lögaðila sem hann var talinn tengjast í gegnum eignaraðild og/eða stjórnun. Við þá athugun vaknaði grunur hjá skatt­rannsóknarstjóra um að skattframtöl væru röng.

Í kjölfarið voru skattskil Hreggviðs, Ragnars og þáttur endurskoðandans, Símons Gunnarssonar, teknir til rannsóknar.

Með úrskurðum ríkisskattstjóra voru gjöld endurákvörðuð en málið í framhaldinu kært til lögreglu og fjórmenningarnir ákærðir að lokinni rannsókn.

Jón Ólafsson, Hreggviður Jónsson og Ragnar Birgisson kröfðust frávísunar á þeim forsendum að verið væri að ákvarða þeim refsingu á ný fyrir háttsemi sem þeim hafi þegar verið refsað fyrir og að þeir sættu endurtekinni opinberri rannsókn vegna sömu sakarefna. Þá kröfðust fjórmenningarnir allir frávísunar á þeim forsendum að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Loks byggðu ákærðu allir á því í þriðja lagi að þeir hefðu ekki við rannsókn og meðferð málsins notið reglunnar um að teljast saklausir uns sekt hafi verið sönnuð.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á frávísunarkröfu Jóns Ólafssonar, Hreggviðs Jónssonar og Ragnars Birgissonar og slær því föstu að álag á vantalda skattstofna verði talið refsing í skilningi samningsviðauka við mann­réttindasáttmála Evrópu. Ákærðu hafi þegar verið gerð refsing fyrir brot á skattalögum.

Ákæra á hendur Símoni Gunnarssyni, endurskoðanda Norðurljósa, Skífunnar og Íslenska útvarpsfélagsins stendur þó og verður tekin fyrir hjá héraðsdómi. Krafa Símonar um frávísun byggði á því að mál hans hefði dregist með þeim hætti hjá skattyfirvöldum og ríkislögreglustjóra að skylt sé að vísa málinu frá dómi af þeim sökum.

Héraðsdómur segir að þó svo dráttur á meðferð þessa máls sé lengri en almennt þekkist við meðferð sakamála verði þessum frávísunar­kröfum engu að síður hafnað, sem og öðrum af hálfu Símonar Gunnarssonar sem grundvelli að frávísun málsins.

Málsvarnarlaun verjenda þremenninganna upp á rúmar 3,7 milljónir króna greiðast úr ríkissjóði en ákvörðun um málsvarnarlaun verjanda Símons Gunnarssonar bíður efnisdóms í málinu.

Ekki liggur fyrir hvort ákæruvaldið áfrýjar úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert