Laun lækka tímabundið um 6-15% hjá RÚV

Laun starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. lækka tímabundið frá og með áramótum um 6% til 15%. Starfsmenn með laun undir 300 þúsund krónum á mánuði lækka ekki. Páll Magnússon, útvarpsstjóri segir að með launalækkuninni náist fyrirhugaður 150 milljóna króna sparnaður. Hann segir ákvörðunina verða endurskoðaða um mitt ár 2009.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, tilkynnti á starfsmannafundi í morgun útfærslu launalækkunar starfsmanna, sem var kynnt samhliða sparnaðartillögum um síðustu mánaðamót.

Frá og með næstu áramótum lækka laun starfsmanna sem hafa 300 til 400 þúsund krónur á mánuði um 6%, þeir sem hafa 400 til 500 þúsund lækka um 8% og laun 500 til 600 þúsund krónur lækka um 9%. ÞEir sem hafa 600 til 700 þúsund krónur á mánuði lækka um 10% og laun yfir 700 þúsund krónum á mánuði lækka um 12%.

Útvarpsstjóri og stjórn RÚV ohf. lækka laun sín um 15%. Laun útvarpsstjóra lækka úr 1.600 þúsund krónum í 1.360 þúsund.

Langflestir starfsmanna eru með laun á bilinu 300 til 500 þúsund og lækka því um 6-8%.

„Ég kynnti fulltrúum stéttarfélaganna þetta í gær og sagði við þá eins og ég sagði á starfsmannafundi í morgun, að ég ætlaðist ekki til að starfsfólk sýndi þessum tillögum stuðning heldur skilning. Þessi ákvörðun verður endurskoðuð um mitt næsta ár og vonandi verðum við farin að sjá einhvern bata sem skilar sér þá til starfsmanna á ný,“ sagði Páll Magnússon, útvarpsstjóri.

Ríkisútvarpið sagði í lok nóvember upp 21 starfsmanni og rifti að auki samningum við 23 verktaka.  Allt í allt hverfa 45 starfsmenn frá RÚV.

Samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun RÚV verður skorið niður um 550 milljónir króna í rekstrinum.

Að auki á að ná fram 150 milljóna króna sparnaði með tímabundinni launalækkun sem kynnt var í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert