Sífellt fleiri leita aðstoðar

Starfsfólk Mæðrastyrksnefndar að störfum en mikil aukning hefur orðið á …
Starfsfólk Mæðrastyrksnefndar að störfum en mikil aukning hefur orðið á beiðnum um aðstoð mbl.is/Golli

Jólaúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur stendur nú yfir. Sendingar út á land eru farnar og fólk af höfuðborgarsvæðinu fær úthlutað í húsnæði Straums í Borgartúni 25. 44% aukning hefur orðið í umsóknum um aðstoð, um 2300 fjölskyldur um allt land fá aðstoð nú en voru 1597 í fyrra. Varlega áætlað má reikna með 2,5 einstaklingum á bak við hverja umsókn sem þýðir að 5.750 einstaklingar njóti aðstoðar, að því er segir í tilkynningu.

„Jólasöfnun Hjálparstarfsins gengur mjög vel, fyrirtæki, stéttarfélög og samtök hafa verið rausnarleg og margir hafa styrkt innanlandsaðstoðina sérstaklega. Fleiri hafa boðið fram krafta sína sem sjálfboðaliðar en nokkru sinni fyrr. Þar á meðal er fólk sem hefur misst vinnuna vegna ástandsins, röskt fólk sem auðveldar aðstoðina til muna.

Einnig hafa skilað sér stórar gjafir til vatnsverkefna í Afríku enda margir sem vilja styrkja verkefni í Afríku þar sem leitast er við að bæta lífsafkomu þeirra fátækustu. Þar er Hjálparstarfið skuldbundið til nokkurra ára í senn og mikilvægt að geta staðið við loforð þar. Nýi vefurinn framlag.is hefur auðveldað fólki að gefa til hjálparstarfs, þar getur fólk valið sér málefni. Það er mikill stuðningur við Hjálparstaf kirkjunnar í samfélaginu, söfnunarfé frá félögum, stofnunum, sóknum, fyrirtækjum og einstaklingum er nú þegar komið í um 47 milljónir króna, í fyrra söfnuðustu 34 milljónir. Söfnunin stendur út janúar 2009," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert