Ekkert jólahald á Kárahnjúkum

Vinna í Hafrahvammagljúfri í desember 2008.
Vinna í Hafrahvammagljúfri í desember 2008. mbl.is/Jón Egill Sveinsson

Ekkert jólahald verður við Kárahnjúka í ár, enda enginn mannskapur þar við störf um hátíðarnar, utan fjórir eftirlitsmenn. Jólalegt verður þó í Fljótsdalsstöð, þar sem vaktin er alltaf staðin hvað sem hátíðum líður.
Öll veitumannvirki Kárahnjúkavirkjunar eru nú komin í gagnið, eftir að vatn fór fyrr í vetur að safnast í Grjótár- og Kelduárlón Hraunaveitna.

Austurglugginn greinir frá. Starfsmenn Ístaks hf. kepptust fyrir jólin við að flytja grjótmulning til á botni Hafrahvammagljúfurs eftir að sprengd var bergfylla gegnt enda yfirfalls Hálslóns neðan við Kárahnjúkastíflu.
Þetta var lokaverkefnið á virkjunarsvæðinu í ár eftir því sem fram kemur á vef Kárahnjúkavirkjunar.

Frá upphafi framkvæmda var vitað að djúp sprunga væri í bergi á austurbakka gljúfursins neðan stíflu, samsíða gljúfrinu. Stöðugt var fylgst með hreyfingum í berginu með mælitækjum og í ágúst 2008 víkkaði sprungan umtalsvert eftir að vatn fór að renna á ný á yfirfallinu. Snemma í október hrundi bergfyllan að hluta og þá lá fyrir að sprengja þyrfti afgang hennar til að tryggja öryggi þeirra sem ættu eftir að vinna í gljúfrinu sumarið 2009.
 
Það sem eftir stóð af bergfyllunni var sprengt í vetur í tveimur áföngum, alls 20.000 rúmmetrar. Fyrri sprengingin var í byrjun nóvember en sú síðari núna um miðjan desember. 
 
Byrjað var að flytja efnið upp úr gljúfrinu 11. nóvember og á vöktum frá 25. nóvember. Afköstin voru 5.000-7.000 rúmmetrar á sólarhring. Um miðjan desember höfðu um 75.000 rúmmetrar verið fjarlægðir og fluttir til um 400 metra, niður fyrir stæði stíflunnar sem reist verður í gljúfrinu.
 
Sumarið 2009  verður steypt í botn gljúfursins, undir yfirfallsrennunni, og sett upp grjóthleðsla eða stífla skammt þar fyrir neðan til að vatn safnist í einskonar þró og dragi úr afli í Kárahnjúkafossi sem til verður að jafnaði síðsumars þegar Hálslón er fullt.

Vefur Kárahnjúkavirkjunar

mbl.is/Jón Egill Sveinsson
mbl.is/Jón Egill Sveinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert