Ríkið endurgreiði Impregilo 1,3 milljarða

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun íslenska ríkið til að endurgreiða ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo tæplega 1,3 milljarða króna vegna ofgreiddrar staðgreiðslu. Impregilo hafði verið gert af skattyfirvöldum að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem ráðnir voru af starfsmannaleigum. Var ríkissjóður dæmdur til að endurgreiða Impregilo þær greiðslur.

Forsaga málsins er sú að þegar Impregilo hóf að byggja Kárahnjúkastíflu var óljóst hvort Impregilo bæri að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna tveggja starfsmannaleigna, eða hvort starfsmannaleigurnar sjálfar ættu að gera slíkt. Yfirskattanefnd úrskurðaði að Impregilo ætti að greiða staðgreiðsluna og til að fyrirtækið gæti haldið starfsemi sinni hérlendis áfram var ákveðið á fundi með ríkisskattstjóra 17. maí 2005 að greiða staðgreiðsluna líkt og Impregilo væri launagreiðandinn. Það var þó gert með þeim fyrirvara að Impregilo myndi leita réttar síns fyrir dómstólum og gera kröfu um endurgreiðslu ef úrskurðað yrði fyrirtækinu í hag. Hæstiréttur gerði það 20. september í fyrra þegar hann felldi ákvörðun yfirskattanefndar úr gildi.

Impregilo stefndi í ársbyrjun fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, til endurgreiðslu ofteknu skattanna og krafðist endurgreiðslu á tæplega 1.231 milljón króna. Þetta er stærsta endurgreiðslukrafa sem gerð hefur verið á hendur íslenska ríkinu.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur ber íslenska ríkinu að greiða Impregilo vexti af einstökum hlutum kröfunnar, allt frá byrjun árs 2004 til 25. október 2007. Frá þeim tíma ber ríkinu að greiða dráttarvexti af rúmlega 1200 milljónum króna auk vaxtavaxta.

Lögbundnir dráttarvextir eru í dag yfir 26,5% en lækka niður í 25% um áramót.

Ekki liggur fyrir hvort íslenska ríkið áfrýjar dómi héraðsdóms til hæstaréttar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert