Farbann framlengt í ellefta sinn

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest farbann yfir fyrrverandi framkvæmdastjóra Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna (sem var og hét) í ellefta sinn.

Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hefur verið í farbanni í frá 13. apríl 2007. Hann er grunaður um stórfelld efnahagsbrot, sem felast í útgáfu tilhæfulausrar ábyrgðaryfirlýsingar upp á 200 milljónir bandaríkjadala. Talið er að ábyrgðir vegna athæfis mannsins geti fallið á þrotabú Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna.  

Hæstiréttur staðfesti framlengt farbann yfir manninum á Þorláksmessu og skilaði einn dómari sératkvæði og vísaði til rökstuðnings í tveimur fyrri sératkvæðum sínum frá 22. september og 27. nóvember, þar sem hann taldi að fella ætti farbannsúrskurðinn úr gildi. Í sératkvæðinu frá 22. september kom fram að maðurinn sem í hlut ætti hefði þegar sætt farbanni í meira en sautján mánuði, sem sé lengra en önnur dæmi séu um í íslenskri réttarframkvæmd. Í því sératkvæði kom jafnframt fram að líklegast yrði nauðsynlegt að óska enn framlengingar farbannsins. 

Með staðfestingu Hæstaréttar frá 23. desember hefur það verið framlengt tvisvar til viðbótar og ellefu sinnum í heildina. Hefur maðurinn verið í farbanni samfleytt í rúma tuttugu mánuði.

Í forsendum Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Hæstiréttur staðfesti, segir að rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil og nái til margra landa. Um mjög háar fjárhæðir sé að ræða sem rannsókn málsins beinist að og miklir hagsmunir séu húfi sem tengist henni. Enn eigi eftir að afla gagna frá útlöndum.

Maðurinn krafðist þess aðallega að úrskurður um farbann yrði felldur úr gildi og til vara að honum yrði gert að setja tryggingu fyrir nærveru sinni í stað farbanns. Ekki var fallist á það og verður maðurinn í farbanni til 29. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert