Helguvík langt komin í ríkisstjórn

Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík.
Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík. Víkurfréttir / Hilmar Bragi

Fjárfestingarsamningur milli iðnaðarráðuneytisins og Norðuráls vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík var kynntur á ríkisstjórnarfundi á Þorláksmessu.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra staðfesti í samtali við Morgunblaðið að samningurinn hefði verið ræddur á fundinum og að málið væri langt komið. Það væri þó ekki frágengið.

Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Fjárfestingarsamningurinn er Norðuráli afar mikilvægur því hann staðfestir stuðning ríkisstjórnar við verkefnið og auðveldar fjármögnun þess.

Áður en hann verður undirritaður þarf þó fyrst að tilkynna hann, líkt og alla opinbera styrki af þessu tagi, til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem síðan skilar umsögn um samninginn. Þegar því er lokið fer hann fyrir Alþingi til samþykktar.

Þegar sambærilegur samningur var gerður við Alcoa vegna álversins við Reyðarfjörð tók nokkurn tíma að afgreiða hann frá ESA.

Stofnunin óskaði þá eftir frekari upplýsingum áður en hún skilaði umsögn sinni.

Ástæðan var sú að hið opinbera lagði fram jafnt stuðning og ívilnun með samningnum þar sem ýmist var veittur afsláttur af gjöldum eða þau aflögð með öllu.

Samningurinn við Norðurál er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins af svipuðum meiði og felur meðal annars í sér undanþágur frá ýmsum gildandi lögum.

Til dæmis veitir hann Norðuráli undanþágu frá því að greiða ýmis opinber gjöld og tryggir að félagið þurfi ekki að greiða hærri skatta en þá prósentu sem nú er lögð á fyrirtæki.

Það þýðir að Norðurál þarf aldrei að greiða hærri skatta en sem nemur 15 prósentum af tekjuskattsstofni sínum þrátt fyrir að skattar á fyrirtæki myndu hækka á Íslandi yrði samningurinn undirritaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert