Nýtt skipurit kynnt í Keflavík

Björn Bjarnason fundaði með lögreglunni á Suðurnesjum í dag.
Björn Bjarnason fundaði með lögreglunni á Suðurnesjum í dag. Frikki

Nýtt skipurit lögregluliðsins í Keflavík var kynnt á fundi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra með lögreglumönnum á Suðurnesjum nú síðdegis. Þetta kemur fram í nýrri færslu á bloggsíðu Björns.

Segir í færslunni að á fundinum hafi verið staðfest „sú breyting, sem ákveðin hefur verið að tillögu þeirra Ólafs K. Ólafsson, sýslumanns Snæfellinga, Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, og Halldórs Halldórssonar, fjármálastjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þeir tóku þrír að sér hinn 1. október sl. að leiða liðið inn í nýtt skipulag.“

Að loknum fundinum var nýja skipuritið kynnt fulltrúum sveitarstjórna á Suðurnesjum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir tekur við lögreglustjóraembættinu í Keflavík hinn 1. janúar af Ólafi K. Ólafssyni.

„Með þessum ágætu og málefnalegu fundum í Reykjanesbæ lauk endurskipulagningu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem ég kynnti í mars sl., þegar fyrir lá, að enn einu sinni stefndi í mikinn fjárhagsvanda hjá embættinu á þessu ári,“ segir Björn á síðu sinni. „Miðað við allan hávaðann, sem var frá mars fram til loka september vegna tillagna minna um breytingar á embættinu, er fagnaðarefni, að lokaskrefið er stigið í góðri sátt og án þess, að menn séu í uppnámi.“

Bloggsíða Björns Bjarnasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert