Kaupa engin veiðileyfi

mbl.is/Einar Falur

Nýi Kaupþing banki hefur ekki keypt nein veiðileyfi fyrir næsta sumar og tók heldur ekki við neinum veiðileyfum af forvera sínum. Bankinn hefur engar fyrirætlanir um að kaupa veiðileyfi næsta sumar. Þetta kemur fram í svari bankastjóra Kaupþings vegna fyrirspurnar frá Stangveiðifélagi Seyðisfjarðar (SVS).

Samkvæmt upplýsingum stjórnar Landsbankans (NBI hf.) hefur bankinn engin veiðileyfi keypt eða fest fyrir þetta ár og mun ekki gera það.

Glitnir hefur ekki svarað fyrirspurn stangveiðifélagsins en félagið sendi fyrirspurnina á bankana þrjá.

Í fyrirspurn SVS kemur fram að undanfarin ár, hafa bankarnir þrír, keypt umtalsvert magn veiðileyfa í nokkrum af bestu laxveiðiám landsins.
Verð þessara leyfa, hefur verið úr öllu samhengi við annað verðlag í landinu, dagsstöngin hefur verið keypt á marga tugi og jafnvel hundruð þúsundir króna.
 
„Þessi kaup bankanna á laxveiðileyfum hefur m.a. orðið til þess, að stuðla að hækkun leyfa úr öllu hófi, þannig að stangveiðifélög hérlendis, hafa ekki getað útvegað félagsmönnum sínum leyfi í laxveiðiám landsins, þar sem verðið hefur verið langt yfir getu hins almenna félagsmanns.
 
Þar sem bankarnir eru nú í eigu almennings og með tilliti til þess, hve ríkisvaldið sker nú niður í allri þjónustu og framkvæmdum, væri það mjög athyglivert, ef bankarnir ætluðu að halda þessum kaupum á laxveiðileyfum áfram.
 
Því óskar stjórn SVS eftir svari við því, hvort bankarnir hafi nú þegar fest kaup á einhverjum laxveiðileyfum, fyrir veiðitímabilið 2009,
eða hvort að bankarnir hafi einhver áform um að kaupa slík leyfi," að því er segir í fyrirspurn SVS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert