Ekki borga skuldir bankahrunsins segir bæjarstjórinn

mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

„Í öllum bænum, ekki fara að eyðileggja líf ykkar á því, að fara að reyna að borga þetta allt saman. Sumt af þessu verður aldrei hægt að borga og því fyrr sem maður áttar sig á því, þeim mun betra. Það voru ekki við sem komum Íslandi á hausinn,“ sagði Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstóri á Seyðisfirði í áramótaávarpi sínu.

Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði gerði bankahrunið að umtalsefni í áramótaávarpi sínu og lá ekki á skoðunum sínum.

„Í einni sjónhendingu hafa útrásarvíkingarnir nú rústað þessari ímynd sem við höfum stolt verið að byggja upp í rúmlega hálfa öld. Í mínum huga eru þetta ekkert nema ótýndir glæpamenn. Þeir hafa ekki bara rústað mannorði íslenskrar þjóðar á erlendri grund heldur steypt þjóðinni á kaf í skuldafen sem næstu kynslóðir eiga að borga. Hvers eiga börnin okkar og barnabörnin að gjalda? Hver gaf þessum mönnum leyfi til að nota þessa spilapeninga? Hver gaf þeim leyfi til að veðsetja okkur langt í framtíðina? Og enn hefur enginn lýst sig ábyrgan,“ segir bæjarstjóri Seyðisfjarðar.

Hann segir landsmenn hafa verið teymda til slátrunar eins og hverja aðra sauði og þar við sitji. Nú þurfi landsmenn hins vegar að snúa sér að bláköldum raunveruleikanum og vinna sig út úr þessum vanda. Við verðum að bretta upp ermar og taka á því, herða sultarólina og þrengja að okkur á allan máta.

„Sum okkar munu væntanlega láta hirða af okkur fínu bílana okkar sem við fengum á hagstæðu myntkörfulánunum sem allir vildu lána okkur. Einhverjir tapa húsunum sínum og sum okkar fara jafnvel á hausinn. En það drepur okkur ekki. Þetta eru bara einfaldlega veraldlegir hlutir sem við getum alveg sætt okkur við að missa.“

Áramótaræða bæjarstjóra Seyðisfjarðar

Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar.
Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert