Segir sparnaðinn dýrkeyptan

mbl.is/Kristinn

Stjórnvöld ættu að leggja áherslu á sálfræðilegan stuðning og meðferð í skólum í þeim tilgangi að styðja sérstaklega við þau börn sem búa við erfiðar heimilisaðstæður. Þá ætti að auka aðgengi fólks að ráðgjöf og sálfræðilegum stuðningi og hið opinbera ætti að greiða fyrir sálfræðilega meðferð fullorðinna. Þetta er mat Hauks Sigurðssonar, sálfræðings. Hann varar við sparnaði í heilbrigðiskerfinu á tímum efnahagskreppu og bendir í því sambandi á reynslu Finna.

„Hvað getum við lært af reynslu Finna? Geðheilbrigðisleg og félagsleg áhrif efnahagslægða og ráðleggingar til íslenskra stjórnvalda,“ er yfirskrift greinargerðar Hauks Sigurðssonar sálfræðings um sálrænar og félagslegar afleiðingar efnahagskreppunnar. Í greinargerðinni leggur Haukur áherslu á hvað Íslendingar geti lært af Finnum í þeim efnum.

Greinargerðin er að stórum hluta til unnin úr nýrri skýrslu Tryggingastofnunar Finnlands og eru tölurnar þar sláandi. Haukur þingaði með yfirlækni geðdeildar LSH í dag þar sem greinargerðin var kynnt. Hann mun bera þetta efni á borð fyrir heilbrigðisráðherra og yfirstjórn LSH.

Efnahagskreppan í Finnlandi sem hófst í byrjun tíunda áratugarins olli því að finnska markið riðaði til falls, vextir á lánum hækkuðu, fasteignaverðið hrundi, atvinnuleysi jókst gríðarlega, og fyrirtæki og einstaklingar voru þjakaðir af skuldabyrðinni. Fólk missti heimili
sín, fjölskyldur flosnuðu upp og almenningur var þjakaður af miklu félagslegu óöryggi.

Dýrkeyptur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu

Haukur segir að sálrænar afleiðingar hafi orðið verulegar strax á fyrstu árunum. Það hafi lýst sér í auknu þunglyndi og kvíða. Haukur segir að við hrunið hafi finnsk stjórnvöld ekki gert sér grein fyrir þeim sálrænu og félagslegu afleiðingum sem reynslan sýndi að síðan urðu. Finnsk heilbrigðisyfirvöld hafi ekki hrundið af stað sérstökum sálfræðilegum og geðlæknisfræðilegum úrræðum til að styðja við börn, fjölskyldur og fullorðna á þessum erfiðu tímum. Þvert á móti hafi framlög til þessarar
tegundar heilbrigðisþjónustu verið skorin niður. Þrátt fyrir mikinn þrýsting, hafi stjórnvöld neitað að leggja aukið fé til almannatrygginga í þeim tilgangi að greiða niður meðferð sálfræðinga á einkastofum.

Haukur segir nýlega skýrslu Tryggingastofnunar Finnlands gefa mikilvæga mynd af langtíma geðrænum og félagslegum áhrifum efnahagskreppunnar og ofangreindu viðbragðleysi stjórnvalda í
geðheilbrigðisþjónustunni. Í Finnlandi hafi orðið mikil aukning á fjölda
sjúkradagpeningatímabila, sjúkradaga og örorkuþega vegna geðrænna vandamála á árunum sem liðið hafa frá því að efnahagskreppan reið yfir í Finnlandi.

Aukningin var mest í aldurshópnum 30 ára og yngri. Sem dæmi jókst fjöldi sjúkradagpeningatímabila vegna geðrænna vandamála hjá þessum aldurshópi um 120 % og fjöldi örorkuþega vegna geðrænna vandamála meira en tvöfaldaðist. Lang algengasta ástæða örorku og
sjúkradagpeninga var vegna þunglyndis.

Með öðrum orðum, segir Haukur í greinargerð sinni, hefur í Finnlandi orðið gríðarleg aukning á fjölda ungs fólks sem er óvinnufært eða ekki fært til að stunda nám vegna geðrænna vandamála.

Aukið þunglyndi og kvíði

Samkvæmt formanni sálfræðingafélags Finnlands og ofangreindri skýrslu Tryggingastofnunar Finnlands er ástæður fyrir þessari miklu aukningu örorkubóta og sjúkradaga helst að finna í efnahagskreppunni og þeim félagslegu og geðrænu afleiðingum sem urðu á meðan á kreppunni stóð. Þá jókst algengi þunglyndis og kvíða hjá fullorðnu fólki sem hafði neikvæð áhrif á hæfni þeirra til að ala upp börn sín. Þá segir Haukur að mikil vanlíðan foreldra sé einnig líkleg til að valda beinum neikvæðum áhrifum á líðan barna þeirra.

Haukur bendir á að sparnaður Finna í geðheilbrigðiskerfinu á tímum efnahagskreppunnar hafi leitt til þess að þörf fyrir sálfræðileg og félagsleg úrræði var ekki sinnt sem skildi. Afleiðingarnar urðu mikil vanlíðan hjá stórum fjölda fólks. Nú 10-15 árum frá lokum efnahagslægðarinnar séu Finnar að sjá alvarlegar langtímaafleiðingar með miklum tilkostnaði og þjáningu.

Í þeim tilgangi að komast hjá þeim alvarlegu langtíma afleiðingum af því tagi sem Finnar horfa nú fram á, ráðleggur Haukur íslenskum stjórnvöldum eftirfarandi:
1. Leggja aukna áherslu á sálfræðilegan stuðning og meðferð í skólum í þeim tilgangi að styðja sérstaklega við þau börn sem búa við erfiðar heimilisaðstæður.
2. Leggja aukna áherslu á fjölskylduráðgjöf og sálfræðilegan stuðning við fjölskyldur á heilsugæslustöðvum í þeim tilgangi að auka aðgengi almennings að sálfræðilegri aðstoð og fjölskylduráðgjöf.
3. Hefja greiðslur úr almannatryggingakerfinu vegna sálfræðilegrar meðferðar fullorðinna hjá sálfræðingum á einkastofum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að hluti fólks þarf, og mun þurfa, á lengri meðferð að halda en gera má ráð fyrir að hægt sé að veita hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert