Tímaspursmál hvenær starfsemi á St. Jósefs yrði hætt

St. Jósefsspítali.
St. Jósefsspítali.

Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, segir á vef sínum, að það hafi verið tímaspursmál hvenær starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hefði verið sjálfhætt vegna slæms ástands húsnæðisins.

Ásta vitnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember 2007 um spítalann, þar sem segir m.a. að húsnæði St. Jósefsspítala sé orðið gamalt og slitið en elsti hluti byggingarinnar sé frá 1926. Mikið vanti upp á að hún henti vel fyrir nútíma sjúkrahússtarfsemi og margir hlutar húsnæðisins séu illa farnir, þrengsli mikil og lítið afdrep fyrir starfsmenn og stjórnendur deilda.

„Húsið er illa farið og þarfnast töluverðs viðhalds. Nauðsynlegt er að klæða það og endurnýja glugga til þess að koma í veg fyrir leka sem í ákveðnum vindáttum. Ýmis speglunartæki og önnur rannsóknartæki sem kosta tugmilljónir króna eru þá í hættu en starfsfólkið reynir að gæta þeirra með því að breiða yfir þau þegar von er á ákveðnum veðrum," segir m.a. í skýrslunni. 

Ásta segir, að af þessari lýsingu megi ráða að ef sjúkrahússtarfsemi ætti að vera til frambúðar á St, Jósepsspítala í því formi sem verið hafi undanfarin ár, hefði þurft að byggja nýjan spítala frá grunni.

„Það er hins vegar ekki á dagskrá og ákvörðun um flutning þessarra verkefna á aðrar sjúkrastofnanir, þar sem aðstaða og aðbúnaður fyrir sjúklinga og starfsfólk er betri er því rétt, þótt hún sé sársaukafull fyrir marga. Það var tímaspursmál hvenær starfseminni hefði verið sjálfhætt vegna húsnæðisins," segir Ásta og tekur undir ummæli Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, heilsuhagfræðings, í hádegisfréttum Rikisútvarpsins í dag. Þar benti Tinna Laufey á, að aðstöðuleysi á St. Jósepsspítala og lítið notaðar skurðstofur á Suðurnesum réttlæti þær breytingar sem boðaðar hafa verið á starfsemi St. Jósepsspítala í Hafnarfirði.

Bloggvefur Ástu Möller

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert