Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð

mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Boðað hefur verið til stofnfundar Hagsmunasamtaka heimilanna í Háskólanum í Reykjavík annað kvöld. Í tilkynningu undirbúningshóps segir að markmið samtakanna tvíþætt. Annars vegar að berjast fyrir breytingu á aðfaralögum og hins vegar að þrýsta á stjórnvöld um almennar aðgerðir til að leiðrétta stöðu íbúðalána heimilanna.

Í tilkynningu undirbúningshópsins segir að ljóst sé að aðgerða sé þörf varðandi hagsmuni heimilanna við þær sérstöku aðstæður sem hafa skapast í kjölfar veikingar krónunnar um 80% á síðastliðnu ári og 18% verðbólgu á ársgrundvelli. Höfuðstóll íbúðalána fjölskyldna í landinu haldi áfram að hækka, sama hvort lánin voru tekin í íslenskri krónu eða erlendri mynt á sama tíma og verðgildi íbúðanna lækkar.

„Íbúðalán heimilanna og þar með heimilin í landinu, eiga því nú undir högg að sækja gagnvart gengistryggingu lána og veiku gengi krónunnar og margar fjölskyldur sjá nú þegar fram á tæknileg gjaldþrot og að þurfa að yfirgefa heimili sín,“ segir í tilkynningunni.

Síðustu vikur hefur undirbúningshópur unnið að undirbúningi að stofnun samtaka sem er ætlað það meginhlutverk að vera málsvari og talsmaður heimilanna í landinu með því að standa vörð um hagsmuni þeirra og knýja á um mótvægisaðgerðir fyrir heimilin í landinu. Fjöldi manns hefur komið að undirbúningsvinnu í vinnuhópum við mótun hlutverks og markmiða samtakanna.

„Í megindráttum er markmið samtakanna tvíþætt. Í fyrsta lagi að beita sér fyrir breytingum á lögum, og þ.m.t. á lögum um aðför eða svo kölluðum gjaldþrotalögum, sem og öðrum lögum sem talin verður knýjandi þörf á að breyta í þeim tilgangi að verja heimilin. Í öðru lagi er markmiðið að vinna að því að þrýsta á stjórnvöld um almennar aðgerðir til að leiðrétta stöðu íbúðalána heimilanna þannig að fjölskyldurnar í landinu sjái sér fært að búa hér og taka þátt í uppbyggingu nýja Íslands.“

Stofnfundurinn verður í stofu 101 í Háskólanum í Reykjavík annað kvöld og hefst klukkan 20.

Heimasíða Hagsmunasamtaka heimilanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert