Fyrrum stjórn Glitnis áfrýjar dómi

Fyrrverandi stjórnarmenn Glitnis munu áfrýja til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn stjórninni vegna kaupa Glitnis á hlutabréfum Bjarna Ármannssonar í apríl 2007.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að fyrrum stjórn Glitnis væri skaðabótaskyld gagnvart Vilhjálmi og bæri að greiða honum rúmlega 1,9 milljónir króna í bætur.

Í yfirlýsingu, sem stjórnarmennirnir fyrrverandi hafa sent frá sér segjast þeir telja niðurstöðu héraðsdóms í grundvallaratriðum ranga og ekki í samræmi við þær réttarreglur sem gildi á sviði félaga- og skaðabótaréttar. Kaup bankans á umræddum hlutabréfum hafi að auki verið innan samþykkta hluthafafundar bankans.

„Við erum þess fullviss að dómnum verður hnekkt í Hæstirétti," segir í yfirlýsingunni. 

Í stjórn Glitnis sátu á þessum tíma Þorsteinn M. Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert