„Fannst þetta afar uggvænlegt“

Reynt var að kveikja í Alþingishúsinu.
Reynt var að kveikja í Alþingishúsinu.

Reynt var að kveikja í Alþingishúsinu aðfaranótt fimmtudags. Mótmælendur kveiktu bál – eins og svo oft áður – fyrir framan húsið og tók einn þátttakandi sig til og skvetti bensíni á bálið nokkrum sinnum. Tóku nokkrir þátttakendur sig svo til og gerðu bensínrák frá bálinu að húsvegg þinghússins og upp á vegginn. Eldurinn dó út áður en illa fór og tóku lögreglumenn í taumana.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, horfði á árásina á Alþingi. „Ég varð eiginlega skelfingu lostinn því framhlið hússins var í eldi. Ég hélt fyrst að þetta væri hurðin og fannst þetta afar uggvænlegt.“

Helgi varð einnig vitni að því þegar ungur maður gekk berserksgang við húsið. „Hann var fullkomlega trylltur og viti sínu fjær. Hann tók upp hellustein og keyrði af miklu afli í rúðurnar á skrifstofu forseta Alþingis. Hann gerði þetta fjórum sinnum, tók steininn upp og kastaði í rúðurnar.“ Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir að farið verði gaumgæfilega yfir myndir og myndbönd af mótælum og þeir handsamaðir sem unnu skemmdaverk, og einnig þeir sem réðust að lögreglu með grjótkasti.

5,5 milljóna kostnaður á þremur dögum

Á þriðja tug rúðna hafa verið brotnar í Alþingishúsinu í undanfarinni viku, og bein útgjöld vegna mótmæla eru gríðarleg. „Kostnaður við viðhald og þrif frá þriðjudegi til fimmtudags er 5,5 milljónir króna. Og það er varlega áætlað,“ segir Helgi. „En sá kostnaður sem við höfum haft af ýmsu, s.s. þrifum og lagfæringum frá því í haust, er nær tíu milljónum króna. Þar fyrir utan er mikill kostnaður af aukavinnu starfsfólks, s.s. um helgar og á næturnar.“

Ráðist var í ýmsar aðgerðir til að búa húsið undir ágang, m.a. voru hurðir og lásar treystir og rúður styrktar.

Í hnotskurn
» Haustið 1879 var hafist handa við að grafa fyrir grunni Alþingishússins. Um 100 manns fengu vinnu við smíði hússins, sem var fullsmíðað sumarið 1881.
» 100. gr almennra hegningarlaga: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert