Segir þingmenn VG hafa veist að lögreglu

mbl.is/Ómar

„Þingmenn þeirra [VG] hafa sýnt mikinn tvískinnung í afstöðu sinni til lögreglunnar. Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason hafa beinlínis veist að lögreglunni vegna aðgerða hennar. Álfheiður varð sér hreinlega til skammar með framgöngu sinni í þinghúsinu þriðjudaginn 19. janúar til stuðnings þeim, sem réðust að húsinu, og óvild í garð lögreglu,“ segir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra á vefsíðu sinni.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra skrifar á vefsíðu sinni m.a. um stjórnmálaástandið. Hann segir meira nú en áður rætt um að vinstri/græn setjist í ríkisstjórn, ef ekki næstu daga þá örugglega eftir kosningar í maí.

„Á sínum tíma mynduðum við Einar Kristinn Guðfinnsson samstöðu með þeim Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur, fulltrúum vinstri/grænna, í Evrópunefnd og skiluðum við fjögur sameiginlegu áliti gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég get því vel tekið afstöðu með vinstri/grænum, ef svo ber undir. Á hinn bóginn er einnig margt, sem á milli skilur,“ segir Björn og bætir við að síðustu daga hafi ágreiningur hans við VG skerpst vegna afstöðu og framgöngu þingmanna VG til lögreglunnar og varðstöðu hennar við Alþingishúsið.

Björn segir að eftir að uppúr sauð við þinghúsið þriðjudaginn 19. janúar hafi Atli Gíslason, þingmaður VG látið eins og þinghúsinu hafi verið breytt í lögreglustöð og fangelsi. Atli hafi gefið til kynna, að hann ætlaði lengra með það mál en í fjölmiðla.

„Ögmundur Jónasson, þingmaður VG er formaður BSRB stéttarfélags lögreglumanna. Meðal lögreglumanna hefur oft verið rætt, hvort landssamband þeirra eigi heima í BSRB og hafa þær umræður nú sprottið upp að nýju. Í þingumræðum fimmtudaginn 22. janúar vildi Steingrímur J. Sigfússon bera í bætifláka fyrir flokkssystkini sín í VG og sagði: „Ég held að það sé óhjákvæmilegt að héðan úr þessu húsi sendum við þá áskorun til allra að gæta stillingar og halda sig við friðsamlegar og lögmætar aðgerðir og hvetja bæði mótmælendur og lögreglu til þess að reyna að halda ró sinni....,“ skrifar Björn Bjarnason. 

Hann segir að í ljósi skrílslátanna, sem urðu aðfararnótt þessa fimmtudags sé sérkennilegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að Steingrímur J. dragi mótmælendur og lögreglu í sama dilk og hvetji báða til að sýna ró.

„Lögreglan hefur svo sannarlega sýnt mikið langlundargeð og með öllu ósæmilegt að líkja framgöngu hennar við lætin í mótmælendum á þann hátt, sem Steingrímur J. gerir,“ skrifar dóms- og kirkjumálaráðherra.

Vefsíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert