Hátt í þúsund störf flutt úr landi

„Ekki er ólíklegt að hátt í 1000 störf í fiskvinnslu og þjónustugreinum tapist við það að 56.548 tonn af óunnum afla sé flutt út á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og flutningaskipum að verðmæti 12,3 milljarðar króna,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags. Hann segir miður að 30 þúsund tonna aukning þorskkvótans á dögunum hafi ekki verið skilyrt við að aflinn yrði unnin hér.

Aðalsteinn, sem jafnframt er sviðsstjóri matvælasviðs starfsgreinasambands Íslands, skrifar um fiskútflutninginn á vefsíðu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hann segir að á sama tíma og atvinnuleysi hafi vaxið verulega á Íslandi og allt bendi til þess að sú þróun muni halda áfram, hafi útflutningur á óunnum fiski úr landi aukist verulega.

Aðalsteinn segir að verðmæti útflutts óunnins afla hafi aukist um rúm 20% milli síðustu fiskveiðiára og í magni mælt hafi útflutningurinn vaxið um 14%, það er úr 49.612 tonnum í 56.548 tonn.

Vestmannaeyjahöfn hefur lengi verið mesta útflutningshöfn fyrir óunninn afla frá Íslandi. Á síðasta ári voru flutt út af óunnum afla frá Vestmannaeyjum alls 21.817 tonn fyrir 4.718 milljónir króna.

„Sjávarútvegsráðherra jók nýlega kvótann um 30.000 tonn. Því miður var úthlutunin á kvótanum ekki bundin við að hann verði unninn á Íslandi. Því má reikna með að fiskvinnslufólk m.a. í Bretlandi fagni ákvörðun ráðherrans enda sér það fram á meiri fisk frá Íslandi og þar með meiri vinnu. Miðað við núverandi atvinnuástand á Íslandi hefði verið nær að skilyrða kvótaaukninguna við að aflinn yrði unninn af íslensku fiskvinnslufólki,“ segir Aðalsteinn Baldursson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert