Gagnrýna uppsagnir

Fólkið sem sagt var upp starfaði við ræstingar á Landspítalanum …
Fólkið sem sagt var upp starfaði við ræstingar á Landspítalanum í Fossvogi.

„Staðan er þannig að nú er um 13.000 manns á atvinnuleysisbótum. Í mínum huga þá er það alveg klárt og skýrt að þessi ákvörðun spítalans er ákvörðun um að senda þetta fólk beint inn á atvinnuleysisbætur," segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar, um uppsagnir á öllum 30 starfsmönnum í ræstingu á Landspítalanum í Fossvogi.

„Við erum að glíma við eitt mesta atvinnuleysi Íslandssögunnar. Þó að það hafi legið fyrir einhver ákvörðun spítalans, sem við í sjálfu sér höfðum enga vitneskju um, að fara með þessi störf í útboð [á EES-svæðinu], þá finnst okkur að staðan sé einfaldlega þannig að framkvæmdastjórn spítalans hefði átt að draga þetta til baka.

Við funduðum fyrst með þeim aðilum sem höfðu með framkvæmdina á þessu að gera og óskuðum eftir því að þetta mál yrði tekið upp að nýju af hálfu spítalans, sem leiddi til þess að við mættum síðan á fund hjá starfandi forstjóra á þriðjudag. Þar var farið yfir málið aftur að nýju og við gerðum grein fyrir okkar sjónarmiðum. Þeir sögðust ætla að leggja málið fyrir framkvæmdastjórn spítalans til skoðunar eða endurupptöku. Við fengum síðan tilkynningu um það daginn eftir að spítalinn ætlaði sér að standa við fyrri ákvörðun."

Spítalanum ekki til sóma

Að mati Sigurðar er þessi ósveigjanleiki framkvæmdastjórn Landspítalans „ekki til sóma", með vísun til þess að í starfsmannahópnum séu einstaklingar með langan starfsaldur sem hafi „þjónað sjúkrahúsinu á þeim tímum þegar hvað erfiðast hefur verið að fá fólk til starfa".

Aðspurður hvort hann telji að ákvörðuninni verði snúið við með nýjum heilbrigðisráðherra kveðst Sigurður „ekkert vita um það".

„Við gerum okkur grein fyrir því að það er verið að fara í niðurskurð svo sem alls staðar í samfélaginu, þar á meðal inn á Landspítalanum. Við gerum hins vegar þá kröfu að þetta starfsfólk sitji við sama borð og aðrir starfsmenn og að það búi ekki við annars konar atvinnuöryggi heldur en aðrir starfsmenn spítalanna eða heilbrigðiskerfisins."

Inntur eftir þessari gagnrýni segir Björn Zoëga, starfandi forstjóri Landspítalans, að spítalinn hafi „hægt og sígandi verið að breyta framkvæmdinni á ræstingu á spítalanum". Þegar hafi verið efnt til útboðs á ræstingu í vissum byggingum spítalans, „með umtalsverðri hagræðingu fyrir spítalann".

Verður sett í forgang

Hvað varði svigrúm spítalans til að falla frá útboðinu segir Björn að ákvörðun um það hafi verið tekin síðasta sumar þegar ástandið í efnahagsmálum hafi verið með allt öðru móti. Í ljósi aðstæðna muni spítalinn reyna að finna starfsmönnunum 30 vinnu hjá verktakanum sem tekur að sér ræstinguna, ásamt því sem það verði sett í forgang þegar sambærileg störf losni hjá spítalanum.

Að hans mati hefði það verið slæmur kostur að hætta við útboðið.

„Það hefði kostað okkar töluverða hagræðingu. Þá hefðum við kannski þurft að segja upp einhverju öðru fólki. Eins og kunnugt er þá er spítalinn í mjög aðþrengdri stöðu," segir Björn Zoëga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert