Rauði krossinn opnar miðstöð fyrir fólk í erfiðleikum

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. mbl.is/Jim Smart

Miðstöð, þar sem aðstoð verður veitt í samræmi við neyðarvarnaskipulag Rauða krossins, verður sett á laggirnar á næstu vikum af Rauða krossinum  á Íslandi til að bregðast við þörf sem hefur skapast í samfélaginu í kjölfar efnahagsástandsins.

Boðið verður upp á sálrænan stuðning, ráðgjöf og námskeið til að takast á við breyttar aðstæður fólks í landinu. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi Rauða krossins í gærkvöldi.

Rauði krossinn flýtti einnig árlegum formannafundi sínum um tvo mánuði til að sameina viðbrögð allra 50 deilda félagsins vegna efnahagsástandsins. Á fundinum sem lauk fyrir stundu var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing:

„Yfir samfélaginu hvílir skuggi alvarlegustu efnahagskreppu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir um áratugaskeið eða í meira en hálfa öld . Afleiðingar hennar eru ekki með öllu fyrirséðar en þó er ljóst að fjöldi einstaklinga og fjölskyldna standa á tímamótum, horfa fram á atvinnumissi og erfiðleika. Þörfin fyrir framlag Rauða kross Íslands hefur sjaldan verið meiri.

Rauði krossinn er viðbragðsaðili í neyð og hefur byggt upp kerfi þar að lútandi, veitt fjöldahjálp og sálrænan stuðning. Félagið mun við þessar aðstæður stíga fram og veita fólki aðstoð til að takast á við breyttar aðstæður í samfélaginu.

Mikilvægi þeirrar starfsemi sem nú þegar er sinnt í deildum félagsins á eftir að aukast verulega á næstunni. Starfið er víðfeðmt og fjölbreytt og nær nú þegar til margra hópa sem standa höllum fæti. Sjálfboðaliðar Rauða krossins búa yfir mikilli reynslu sem mikilvægt er að nýta til hins ítrasta við núverandi aðstæður. Deildir félagsins um allt land eru tilbúnar til samstarfs við stjórnvöld og félagasamtök í þessu sambandi og hefur fjórðungur deildanna þegar hafið slíka samvinnu," að því er segir í tilkynningu.

Rauði kross Íslands
Rauði kross Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert