Fullt á hvalafundi

Vel var tekið á móti Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra þegar …
Vel var tekið á móti Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra þegar hann mætti á fundinn. Morgunblaðið/Kristinn

Fullt er út úr dyrum á opnum fundi um hvalveiðar sem Verkalýðsfélag Akraness stendur að í kvöld ásamt Akraneskaupstað. Framsögumenn á fundinum eru Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra og Einar Kr. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.

Nær allir þingmenn kjördæmisins sitja fundinn og munu ávarpa hann, þeir eru Guðbjartur Hannesson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Herdís Þórðardóttir, Jón Bjarnason, Kristinn H.Gunnarsson, Magnús Stefánsson og Sturla Böðvarsson.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, ávarpaði fundinn í upphafi hans. Sagðist hann fagna ákvörðun síðasta sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni nk. fimm ár. Sagði hann þetta mikilvæga ákvörðun á viðsjárverðum tímum í atvinnumálum Íslendinga þegar allt stefni í að tuttugu þúsund manns verði án atvinnu með vorinu.

Vilhjálmur sagðist þeirrar skoðunar að hvalveiðar og hvalaskoðun geti vel farið saman og að hvalveiðar myndu ekki hafa neikvæð áhrif á ferðamannaþjónustuna.

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, minnti á að bæjarstjórnin hefði ítrekað hvatt til hvalveiða og fagnaði því ákvörðuninni um veiðar. „Við verðum að nýta auðlindir okkar,“ sagði Gísli og minnti á að á Akranesi og í nágrenni séu nú þegar um 400 manns án atvinnu. „Hér duga engar gungur. Látum ákvörðun um hvalveiðar standa,“ sagði Gísli.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingar hjá Hafrannsóknarstofnun, fór lauslega yfir það sem liggi á bak við ráðgjöf Hafró. Gísli benti á að skýra mætti mikinn fjölda hvala í hafinu upp úr miðri síðustu öld hafi helgast af því að hvalveiðar lágu niðri á árunum milli 1915-1948.

Meginundirstaða ráðgjafar Hafró eru talningar sem framkvæmdar eru á sex ára fresti. Sagði hann lítið af hrefnu hafa fundist í mælingu árið 2007, sem megi vafalítið tengja við bágborið ástand í hafinu. Þetta hafði áhrif á ákvörðun Hafró í þá átt að ráðlagt var að veiða aðeins 100 dýr í stað 400. Sagði hann hlutatalningu hafa verið framkvæmd í fyrra sem benti til þess að hrefnustofninn væri að styrkjast á ný, en stefnt væri að heildartalningu nk. sumar til þess að fá gleggri mynd.

Þess má geta að við frétt um fundinn á vef Verkalýðsfélags Akraness, er birt gömul mynd af Steingrími, þar sem hann sker hval.

Vefur Verkalýðsfélagsins

Fullt er út úr dyrum á opnum fundi um hvalveiðar …
Fullt er út úr dyrum á opnum fundi um hvalveiðar á Akranesi í kvöld. Morgunblaðið/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert