Skapstóri forsetinn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/RAX

Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine fjallar um Ólaf Ragnar Grímsson forseta á vefsíðu sinni í dag og segir hann valda Íslendingum sífellt meiri vandræðum með skapbræði sinni. Síðast hafi hann valdið titringi hjá þýskum sparifjáreigendum með ummælum sínum í þýskum fjölmiðlum. 

Rætt er um pólitíska fortíð Ólafs þar sem hann hafi verið þekktur fyrir að standa uppi í hárinu á andstæðingum sínum og að það hafi lítið breyst eftir að hann settist að á Bessastöðum.

Nú virðist sem Ólafur, sem þrisvar sinnum hafi verið kosinn af þjóðinni, hafi misstigið sig. Hann hafi afsakað tilraun sína til að kenna erlendum þjóðum um efnahagskreppuna á Íslandi, með því að hann hafi aðeins viljað ljá íslensku þjóðinni rödd sína.

Í greininni segir að síðast í nóvember hafi Ólafur átt fund með sendiherrum og gert veður út af því að Bretar hafi fryst eigur Íslendinga í Bretlandi með notkun hryðjuverkalaga. Í greininni segir að þrátt fyrir vafasamar aðgerðir Breta hafi Ólafur hagað sér eins og lýðskrumari. Hegðun hans hafi verið óviðeigandi í ljósi þeirrar milljarðaaðstoðar sem erlendar þjóðir hafi lofað Íslandi. Ólafi hljóti að hafa verið kunnugt um glæfraskap íslenskra bankamanna, ekki síst þar sem hann hafi verið í stjórnarandstöðu þegar Davíð Oddsson einkavæddi bankana.

Greinarhöfundur ályktar að nú sé svo komið að Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson, sem lengi hafi verið svarnir fjéndur, eigi a.m.k. eitt sameiginlegt. Báðir geri nýrri ríkisstjórn erfitt fyrir með gjörðum sínum. Davíð haldi fast í embætti seðlabankastjóra á meðan Ólafur grafi undan tilraunum hennar til að efla traust Íslands á erlendum vettvangi. Það sé erfitt verk þegar svo skapstór maður sitji á forsetastóli.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert