Forsætisráðherra: Bréf Eiríks veldur vonbrigðum

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að bréf Eiríks Guðnasonar, seðlabankastjóra valdi henni ákveðnum vonbrigðum þar sem hann segist ætla að láta af störfum þann 1. júní nk. Hún hafi beint þeim tilmælum til bankastjóranna þriggja að þeir létu af störfum nú þegar.

„Ég sé ekki betur á bréfi Eiríks að hann hafi með þessu fallist á sjónarmið mín að mannabreytingar í Seðlabankanum einar og sér séu nauðsynlegar strax til þess að byggja upp nauðsynlegt traust og trúnað með því að biðjast lausnar. En hitt er annað mál að frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi felur í sér að bankastjórastöður Seðlabanka Íslands verði lagðar niður samkvæmt nýjum lögum og þar með bankastjórastaðan sem Eiríkur gegnir nú.

Þegar frumvarpið er orðið að lögum, sem vonandi verður sem allra fyrst, því við verðum að fá festu í störf bankans, þá verður staða seðlabankastjóra auglýst samkvæmt nýjum lögum.

Ég vona að það gangi fyrir hratt fyrir sig eins og nokkur kostur er. Því verð ég að segja að þetta svar Eiríks um að láta af störfum 1. júní veldur mér ákveðnum vonbrigðum.”

Hún segir að í tilmælum hennar til bankastjóranna þriggja hafi komið fram að þeir létu af störfum strax því traust verður að fást á milli stjórnvalda og seðlabanka til að byggja upp trúnað við alþjóðasamfélagið. „Það er eitt af grundvallaratriðum til að ná hér stöðugleika og festu við efnahagsstjórnina.”

Á ekki von á öðru en að meirihluti Alþingis styðji frumvarpið

Aðspurð um stuðning Framsóknarflokksins við seðlabankafrumvarpið þá segir Jóhanna að hún trúi ekki öðru en að frumvarpið verði samþykkt af meirihluta þingmanna þó svo að einhverjar breytingar verði lagðar til á því áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur.

„Ég vona að breytingarnar verði allar í þá veru að styrkja frumvarpið.”

 Hvað varðar Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, þá segir Jóhanna að lög leyfi henni ekki að ganga lengra í því máli og því muni hún ekki gera neitt meira í því máli heldur setja traust sitt á þingið um að frumvarpið verði afgreitt sem fyrst svo hægt verði að auglýsa stöðu seðlabankastjóra sem allra fyrst.

 Aðspurð um starfslokasamninga við bankastjóra Seðlabanka Íslands segir Jóhanna að starfslokasamningar bankastjóranna hafi sinn gang gagnvart lögum og hún geti ekki svarað neinu þar að lútandi.

Undirbúa komu sendinefndar IMF

Hvað varðar komu sendinefndar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem von er á um miðjan febrúar, segir Jóhanna að undirbúningur fyrir komu hennar standi yfir. Hún segir að ekki hafi borist svar frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum við beiðni hennar um að aflétta trúnaði á þeim tæknilegu ábendingum sem sjóðurinn sendi í trúnaði til forsætisráðuneytisins.

Hún segir að hún hafi lagt á það áherslu við sjóðinn að upplýsingarnar yrðu settar þannig fram að hægt væri að birta þær opinberlega. „Ég veit ekki betur en þeir séu að undirbúa það,” segir forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert