2.000 íslensk Visakort í athugun

Fylgst er með um 2.000 íslenskum visakortum vegna Heartlands málsins …
Fylgst er með um 2.000 íslenskum visakortum vegna Heartlands málsins svokallaða. ÞÖK

Um 2.000 íslensk Visakort hafa verið sett á athugunarlista vegna Heartlandmálsins svokallaða í Bandaríkjunum, sem m.a. hefur leitt til þess að 1.800 greiðslukortum í Noregi var lokað og fylgst er með 11 þúsund til viðbótar. Málið virðist ekki snerta íslenska Mastercard korthafa.

„Það hafa verið sett um 2000 íslensk kort á athugunarlista, en ekki verið tekin ákvörðun um hvort þeim verði lokað, segir Höskuldur Ólafsson forstjóri Valitors, sem er með umsýslu Visakorta hér á landi. „Það er fylgst með því í eftirlitskerfum Visa hvort einhverjar vísbendingar séu um að verið sé að misnota þau. Til þess eru ákveðnar leiðir og ef grunur vaknar um misnotkun kortanna þá grípa menn inn í og loka viðkomandi korti eða jafnvel tilteknum númeralotum. Enn hefur þó ekki verið tekin nein ákvörðun um slíkt."

Höskuldur staðfestir að fylgst sé með umræddum kortum vegna Heartland málsins í Bandaríkjunum. „Það er þó ekki endilega þannig að númerum þessara korta hafi verið stolið, en það er ekki hægt að útiloka það. En það, að ekki eru komin fyrirmæli um að skipta kortunum út, gefur til kynna að einhver óvissa sé um hvort þetta varði þessi kort."

Málið er rakið til Bandaríkjanna þar sem tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi Heartland Payment Systems, sem er eitt af stærstu bandarísku fyrirtækjunum sem sjá um millifærslur vegna greiðslukorta. Mánaðarlega sér Heartland um u.þ.b. 100 milljónir millifærslna frá um 250 þúsund greiðslustöðum, aðallega í Bandaríkjunum. Fyrirtækið hafði aðgang að miðlægum greiðslukerfum, og m.a. greiðslukerfum Visa og Mastercard. Heartland hefur staðfest að sennilega hefur tölvuþrjótunum tekist að afrita segulröndina sem staðfestir greiðsluna frá korthafanum.

Viktor Ólason, er framkvæmdastjóri Kreditkorta, sem gefur út Mastercard greiðslukort á Íslandi ásamt bönkum og sparisjóðum auk American Express korta. Hann segir engar tilkynningar hafa komið til Kreditkorta að utan um íslensk kort sem hafi verið í kerfum Heartland. Hins vegar komi mál sem þessi alltaf upp af og til. „Sem betur fer eru þau oftast smærri í sniðum hér hjá okkur. Oftast gerist þetta vegna þess að söluaðilar passa ekki nógu vel upp á kortagögnin svo þjófarnir komast í kortanúmerin. En ef einhver möguleiki er á slíku fáum við tilkynningar um það enda er gríðarlega öflugt eftirlitskerfi hjá kortafyrirtækjunum úti."

Viktor segir eins og Höskuldur að þó að slíkar tilkynningar berist þýði það ekki endilega að viðkomandi kortanúmeri hafi verið stolið. „Ef einhver merki eru um að brotist hafi verið inn í gagnabanka er það nóg til þess að öllum kortum sem hugsanlega eru geymd þar inni er skipt út."

Hann segir ekki langt síðan nokkrum íslenskum Mastercard kortum var skipt út af þessum sökum en árlega þurfi að skipta um 100 kortum vegna slíkra tilvika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert