Eyjamenn skora á sjávarútvegsráðherra

Loðna veidd við Vestmannaeyjar.
Loðna veidd við Vestmannaeyjar. mbl.is/RAX

Bæjarráð Vestmannaeyja skorar á sjávarútvegsráðherra að gefa tafarlaust út 30 til 50 þúsund tonna upphafskvóta í loðnu. Þetta var samþykkt á aukafundi bæjarráðsins, þar sem fjallað var um loðnuveiðar.

„Vestmannaeyjabær hefur fullan skilning á mikilvægi þess að sjávarauðlindin sé umgengin af virðingu og hefur með ráðum og dáð staðið við bakið á ábyrgri fiskveiðistjórnun.  Það mun Vestmannaeyjabær gera áfram enda framtíð byggðar í Vestmannaeyjum háð því að vel takist í stjórnun sjávarauðlindarinnar og nýting stofna sé sjálfbær.
 
Hinsvegar liggur nú fyrir að ástandið í efnahagslífi þjóðarinnar kallar á að einskis sé látið ófreistað í að skapa þjóðarbúinu tekjur.  Á næstu klukkutímum og sólarhringum er loðnan verðmætust enda færi hvert kíló til manneldis af því sem nú veiðist.  Varlega áætlað má gera ráð fyrir að 30 til 50 þúsundtonna upphafskvóti myndi skapa þjóðarbúinu gjaldeyristekjur upp á 4 til 6 milljarða og hleypa miklu lífi í atvinnulíf þjóðarinnar.  Þá er einnig miklivægt að hafa hugfast að fyrstu tonnin eru að öllu jöfnu þau verðmætustu.
 
Sjávarútvegsráðherra fer með ákvörðunarvaldið fyrir hönd ríkisstjórnar hvað ákvörðun þessa varðar.  Hann er þar með ábyrgur fyrir atvinnuástandi og efnahag þúsunda íslenskra heimila.  Í núverandi ástandi kann að þurfa að seinka eitthvað uppbyggingu nytjastofna því nú þarf að veiða og vinna eins mikið og stofnar þola.  Álit sjómanna og útgerða liggja fyrir og eru þær nær einróma hvað varðar þá skoðun að óhætt sé að gefa út lágmarks upphafskvóta í loðnu.
 
Bæjarráð hvetur því og skorar á Steingím J. Sigfússon sjárútvegsráðherra að gefa út 30 til 50 þúsunda upphafskvóta í loðnu,“ segir í greinagerð frá bæjarráðið Vestmannaeyja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert