Vilja afnema eftirlaunalög

Lög um eftirlaun ráðherra og annarra æðstu embættismanna verða afnumin …
Lög um eftirlaun ráðherra og annarra æðstu embættismanna verða afnumin samkvæmt stjórnarfrumvarpi. mbl.is/Kristinn

Stjórnarfrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um að afnema lög um eftirlaun æðstu embættismanna þjóðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu munu almennar reglur um lífeyriskjör opinberra starfsmanna þá gilda um alþingismenn, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands og markmiðið sé því að koma á samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

Gert er þó ráð fyrir því, samkvæmt frumvarpinu, að lögin haldi gildi sínu gagnvart hæstaréttardómurum, sem skipaðir voru í Hæstarétt fyrir gildistöku laganna og einnig gagnvart núverandi forseta Íslands. Miðað er við að lögin taki gildi 1. apríl. Einnig halda menn áunnum réttindum samkvæmt gömlu lögunum en tekið er fram í frumvarpinu, að ef þeir, sem njóta eftirlaunanna, gegni starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess verði laun þeirra dregin frá eftirlaununum.

Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, að alls hafi 633 einstaklingar átt réttindi samkvæmt eftirlaunalögunum í árslok 2007 og nam áfallin eftirlaunaskuldbinding ríkissjóðs vegna þeirra rúmlega 12 milljörðum króna. Samkvæmt frumvarpinu séu áunnin réttindi varðveitt og því muni áhrif þess á skuldbindingar ríkissjóðs koma fram smám saman eftir því sem árin líða.

Þó frumvarpið verði að lögum er ekki gert ráð fyrir að það leiði til mikillar lækkunar á eftirlaunagreiðslum ríkissjóðs næstu árin, heldur munu áhrif þess fyrst og fremst koma fram í lækkun á gjaldfærðri eftirlaunaskuldbindingu ríkissjóðs í ríkisreikningi.

Frumvarpið breyti þó engu um réttindi núverandi forseta Íslands og í reynd litlu um réttindi hæstaréttardómara þar sem starfandi dómarar hafi ávallt fengið lausn frá embætti samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar en það þýðir að þeir fá óskert laun til æviloka.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati á áhrifum frumvarpsins er áætlað að verði frumvarpið að lögum megi að öðru óbreyttu gera ráð fyrir að strax við gildistöku laganna lækki heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna alls hópsins sem lögin ná til og verði 356 milljónum króna lægri en í árslok 2007 og að eftir fjögur ár hafi skuldbindingin lækkað um 1689 milljónir króna eða sem svarar til 14% af skuldbindingunni í árslok 2007.

Ef litið er eingöngu á hóp starfandi alþingismanna og ráðherra þá námu þessar sérstöku skuldbindingar vegna þeirra um 1,8 milljörðum króna í árslok 2007 en eru taldar lækka um tæp 4% við gildistöku, verði frumvarpið að lögum, og um nálægt 40% eða hátt í 700 milljónir að fjórum árum liðnum. 

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert