Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing

Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal

Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, styður eindregið þá hugmynd að boðað verði til stjórnlagaþings og fagnar framtaki Framsóknarflokksins í þá veru. Rætt var um frumvarpið á Alþingi í dag. Hann segir fulla þörf á stjórnlagaþingi og því að stjórnarskráin verði endurskoðuð frá grunni.

Fyrr í dag kom fram í frétt mbl.is að Pétur hefði verið meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem gagnrýndu frumvarpið. Var það sett í samhengi við málflutning samflokksmanna hans, sem margir hverjir gagnrýndu frumvarpið nokkuð harðlega. Pétur gerði eitt atriði að umtalsefni í ræðu sinni, sem varðaði 79. grein stjórnarskrárinnar og þær aðferðir sem hún mælir fyrir um við breytingar á stjórnskipunarlögum.

Að sögn Péturs var þetta vinsamleg ábending um tæknilegar úrbætur, frekar en gagnrýni. Málflutningur hans á þingi í dag var hins vegar á heildina litið eindregið til stuðnings frumvarpinu.

„Ég er líka sömu skoðunar og  Siv Friðleifsdóttir, að stjórnarskráin sé úrelt að mörgu leyti og að það þurfi að sníða hana að íslenskum veruleika en ekki dönsku kóngaveldi,“ sagði Pétur í umræðum um frumvarpið. Pétur tekur sérstaklega fram að hann hafi gert tillögur um breytingar á stjórnskipaninni. Hann telur meðal annars að skerpa þurfi á þrígreiningu ríkisvaldsins, skoða umhverfi dómstólanna og það hvort þörf sé á embætti forseta Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert