Sjálfstæðismenn gagnrýna stjórnlagaþing

Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa látið að …
Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa látið að sér kveða í umræðum um stjórnlagafrumvarp Framsóknarflokksins. mbl.is

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa veitt frumvarpi Framsóknarflokksins um stjórnarskrárbreytingu og stjórnlagaþing nokkra andstöðu á Alþingi í dag. Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir frumvarpinu, en allir þingmenn Framsóknarflokksins eru flutningsmenn þess.

Birgir Ármannsson telur að boðað sé til byltingar með frumvarpinu. Hann segir að hugmyndin um stjórnlagaþing sé ekki fráleit en að bæði sé of naumur tími skammtaður til að ræða málið, auk þess sem að ýmsir gallar séu á frumvarpinu, svo sem of naumur tími fyrir stjórnlagaþingið sjálft til að ná niðurstöðu.

Pétur H. Blöndal, sagði að frumvarpið sjálft sé gallað á þann hátt að 79. grein stjórnarskrárinnar, um það hvernig henni skuli breytt, girði fyrir samþykkt frumvarpsins eins og það er búið. Breyta þurfi þeirri grein, kjósa til Alþingis og samþykkja svo breytinguna aftur, áður en hægt sé að samþykkja frumvarp Framsóknarmanna.

Þá segir Bjarni Benediktsson að með þessu frumvarpi sé horfið frá þeirri venju að leita samráðs við alla stjórnmálaflokka um stjórnarskrárbreytingar. Þar að auki hafi þingmenn minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna ekki sýnt á sér að þeir fagni frumvarpinu eða styðji það. Ekki sé hægt að sjá annað en að annað mál um nákvæmlega sama efni muni koma frá ríkisstjórninni. Hann sé ósammála því að vantreysta eigi Alþingi til þess að ná niðurstöðu um endurskoðun stjórnskipunarinnar. Tilgreindi hann nokkur dæmi um stjórnarskrárbreytingar sem flokkarnir og Alþingi hafi komið sér saman um á umliðnum árum, svo sem kjördæmabreytinguna 1999, breytinguna á mannréttindakaflanum árið 19995, afnám deildaskiptingar Alþingis árið 1991 og fleira. Sagðist hann treysta löggjafarsamkundunni fullkomlega til að leiða málið til lykta, án þess að boða þurfi til stjórnlagaþings. Sagði hann að frekar ætti að ræða um tillögur stjórnarskrárnefndar Jóns Kristjánssonar, þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, sem starfaði á síðasta kjörtímabili en lauk ekki vinnu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert