Tónlistarhúsið fær grænt ljós

Vinna við Tónlistarhúsið hefur legið niðri frá áramótum.
Vinna við Tónlistarhúsið hefur legið niðri frá áramótum. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð samþykkti samhljóða í morgun að halda byggingu Tónlistarhússins áfram. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segist vonast til þess að Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfn verði klárað árið 2011. Framkvæmdinni muni því seinka um eitt ár.

Í samtali við Morgunblaðið í dag sagði Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, að drög að samkomulagi liggi fyrir um að Austurhöfn taki yfir félagið Portus sem átti að byggja og reka húsið. Með í kaupunum fylgja systurfélögin Totus og Situs. Totus er fasteignafélag um byggingu hússins en hið síðarnefnda á lóðar- og byggingarréttindi á svæðinu.

Gert er ráð fyrir fjármögnun frá Nýja Landsbankanum en kostnaður við þann hluta hússins sem eftir er er áætlaður 13-14 milljarðar króna. Um helmingur af því gæti fallið til á þessu ári. Fjármögnunarþættinum er hins vegar ekki lokið og óljóst hver framkvæmdahraðinn verður.

Félagið Austurhöfn er að meirihluta í eigu ríkisins, eða 54%. Reykjavíkurborg á 46% hlut. Að sögn Stefáns verður samið við Íslenska aðalverktaka á grundvelli fyrri samninga.

Samkomulagið verður kynnt nánar á sameiginlegum blaðamannafundi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra og menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, síðar í dag.

Tölvuteikninga af Tónlistarhúsinu
Tölvuteikninga af Tónlistarhúsinu mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert