Óvirðing við Alþingi

Alþingismaður kvartaði í dag yfir því, að hafa ekki fengið svör við fyrirspurn á Alþingi fyrir áramót um bíla í eigu bankanna en síðan hefðu upplýsingar um málið birtst í Morgunblaðinu í dag. 

„Af einhverjum ástæðum virðist blaðamaður Morgunblaðsins eiga auðveldara að nálgast upplýsingar um bílaeign bankanna en Alþingi," sagði Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Sagði hún að engin svör hefði borist frá fjármálafyrirtækjum ríkisins nema frá Glitni þar sem kæmi fram að um þrjátíu starfsmenn ækju um á bílum frá bankanum.

Spurði Eygló Guðbjart Hannesson, forseta Alþingis, hvað hann ætlaði að gera í málinu. Guðbjartur sagði, að gengið hefði verið eftir því að svör bærust en þau hefðu tafist vegna stjórnarskipta.

Eygló sagði að það væri óviðunandi af hálfu stofnana í eigu ríkisins að sýna Alþingi slíka óvirðingu að virða það ekki svars. „Hvað er verið að fela? spurði hún.

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, sagði að nefndin myndi ganga eftir því að fá þessar upplýsingar frá bönkunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert