Þrettán ára selja sig fyrir fíkniefni

Rannsóknum vegna vændis ungra stúlkna allt niður í 13 ára hefur fjölgað undanfarin tvö ár þótt rannsóknirnar hafi ekki verið margar, að því er Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, greinir frá. Að sögn Björgvins hafa stúlkurnar oftar en ekki selt sig fyrir fíkniefni eða áfengi.

Björgvin Björgvinsson kveðst ekki minnast þess að málin hafi leitt til kæru eða ákæru á þessum undanförnum tveimur árum. „Í þessum málum sem við höfum haft til rannsóknar hefur þolandinn, það er að segja barnið, ekki verið mjög samstarfsfús þannig að við eigum erfitt með að ná í þá sem hafa notfært sér stelpurnar,“ segir Björgvin og bætir því við að lögreglan hafi áhyggjur af fjölgun þessara mála.

Nú eru til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeildinni mál tveggja unglingsstúlkna, 13 og 14 ára, sem taldar eru hafa selt sig fyrir fíkniefni og áfengi. Þeir sem vekja athygli á slíkum málum eru yfirleitt skólayfirvöld, að sögn Björgvins.

,,Þeim finnst kannski barnið haga sér öðruvísi en gengur og gerist og skólinn lætur barnayfirvöld vita. Málin koma ekki alltaf til rannsóknar hjá okkur en þau gera það þegar ástæða þykir til. Það fer eftir alvarleika málsins og hversu langt þetta er gengið,“ segir Björgvin.

Díana Óskarsdóttir, ráðgjafi í Foreldrahúsinu, segir nokkur tilfelli um vændi mjög ungra stúlkna hafa komið upp á yfirborðið í viðtölum þar á undanförnum árum.

Stígamót fá í hverri viku nokkur símtöl sem tengjast einhvers konar kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, að því er Þórunn Þórarinsdóttir ráðgjafi greinir frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert