Fréttaskýring: Sögulegar kosningar hvernig sem fer

Frambjóðendur til formanns. Lúðvík Lúðvíksson, Gunnar Páll Pálsson og Kristinn …
Frambjóðendur til formanns. Lúðvík Lúðvíksson, Gunnar Páll Pálsson og Kristinn Örn Jóhannesson sækjast allir eftir því að leiða VR næstu árin.

Rafræn allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna VR um framboð til formanns, stjórnarmanna í einstaklingskjöri og lista til stjórnar og trúnaðarráðs hófst í gær og lýkur á hádegi miðvikudaginn 11. mars nk. Samkvæmt upplýsingum frá Halldóri Grönvold, formanni kjörstjórnar, má búast við því að niðurstaða kosninganna liggi fyrir síðar þann sama dag.

Kosið er á milli þriggja frambjóðenda til formanns VR, þ.e. Gunnars Páls Pálssonar, Kristins Arnar Jóhannessonar og Lúðvíks Lúðvíkssonar, sjö frambjóðenda í einstaklingskjöri til þriggja stjórnarsæta og tveggja lista með fjórum frambjóðendum til stjórnar og 82 einstaklingum til trúnaðarráðs. Annars vegar er um að ræða A-lista trúnaðarráðs og trúnaðarmanna VR og hins vegar L-lista lýðræðis fyrir VR.

Alls eru 25.095 félagsmenn VR á kjörskrá, en enginn virðist treysta sér til þess að spá fyrir um hversu góð kosningaþátttakan verði. Bent er á að þátttaka félagsmanna í rafrænum kosningum um kjarasamninga hafi síðustu ár verið fremur dræm eða um 12-15%. Flestir eru þó sammála um að hvernig sem fari séu þetta sögulegar kosningar þar sem þetta sé fyrsta allsherjaratkvæðagreiðslan í sögu félagsins.

Gagnrýna núverandi forystu

„Hvernig sem fer þá er það í mínum huga 100% sigur að hafa knúið fram allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu þar sem hinn almenni félagsmaður fær að kjósa,“ segir Lúðvík Lúðvíksson og tekur fram að markmiðið með framboði hans sé að koma VR aftur til félagsmanna. Segist hann vilja gera VR og formann félagsins sýnilegri meðal félagsmanna og stuðla að bættari tengslum til þess að auðveldara sé að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á erfiðum tímum. Segir hann skammarlegt að núverandi forystu VR skuli ekki hafa tekist að hífa lægsta taxta VR upp fyrir atvinnuleysisbætur. Þannig hafi ekki verið hugað nægilega vel að hagsmunum félagsmanna í góðærinu.

„Núverandi forysta hefur ekki nýtt sér þá stærð og þann kraft sem í félaginu býr til að hafa áhrif á þróun samfélagsins,“ segir Kristinn Örn Jóhannesson. Tekur hann fram að megináherslur hans snúi að uppbyggingu, siðbót og endurnýjuðu trausti á forystu VR. Segist hann í vinnustaðaheimsóknum sínum hafa skynjað sterkan hljómgrunn með þeim áherslum sem hann boði.

Kristinn er mjög gagnrýninn á þann aðstöðumun sem hann segir vera milli frambjóðenda. „Núverandi forysta VR kýs helst að halda þessar kosningar í kyrrþey og gerir sitt ýtrasta til þess að hindra að aðrir frambjóðendur en Gunnar Páll geti verið í beinum tengslum við félagsmenn,“ segir Kristinn. Vísar hann í því sambandi til þess að hann hafi sóst eftir því að senda félagsmönnum tölvupóst fyrir milligöngu VR en verið hafnað.

„Ég hef fengið allar tegundir af viðbrögðum og á mjög erfitt með að ráða í það,“ segir Gunnar Páll Pálsson spurður um viðbrögð í vinnustaðaheimsókna hans. Segist hann vonast til þess að þátttakan í kosningunum verði góð og niðurstaðan afdráttarlaus. Spurður um áherslur sínar segir hann ljóst að hjálpa þurfi þeim félagsmönnum sem misst hafi vinnuna að komast í gegnum yfirvofandi samdráttarskeið. Verði hann áfram formaður hyggst hann leggja fyrir aðalfund tillögu um nýsköpunarörlán til félagsmanna.

Á að skapa sátt

Allsherjaratkvæðagreiðslan um formann VR sem nú fer fram er sú fyrsta síðan VR varð hreinræktað verkalýðsfélag 1955, en félagið var stofnað 1891.

Gunnar Páll Pálsson hefur verið formaður sl. sjö ár og var seinast endurkjörinn til tveggja ára vorið 2008. Hann sætti harðri gagnrýni fyrir að hafa þegar hann var stjórnarmaður í Kaupþingi stutt þá umdeildu ákvörðun að persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans, vegna lána sem tekin voru vegna kaupréttarsamninga yrðu felldar niður. Um miðjan nóvember sl. gerði Gunnar Páll á félagsfundi VR grein fyrir störfum sínum í stjórn Kaupþings. Lagði hann til að kosningum til stjórnar yrði flýtt og að kosið yrði um formann VR þótt kjörtímabil hans væri ekki hálfnað. Var þetta gert til þess að skapa sátt í félaginu.

Óhætt er því að segja að mótframboð gegn Gunnari Páli til formanns félagsins séu til komin vegna óánægju með framgöngu formannsins. Að mati viðmælenda Morgunblaðsins má búast við því að mótframbjóðendurnir tveir muni taka fylgi hvor af öðrum sem gæti komið sitjandi formanni til góða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert