Öskudagur tekinn snemma

Heill tugur barna var í þessu öskudagsliði á Akureyri í …
Heill tugur barna var í þessu öskudagsliði á Akureyri í morgun. Og ein mamma með - sem strumpur. mbl.is/skapti

Börnin á Akureyri tóku daginn snemma að venju og bjuggu sig undir að ganga á milli fyrirtækja og syngja í von um að fá góðgæti að launum. Að vanda fóru krakkarnir fyrst í ýmis iðn- og þjónustufyrirtæki þar sem starfsmenn koma til vinnu í bítið en reikna má með að um kl. 9 fjölgi verulega í miðbænum þegar verslanir verða opnaðar.

Löng hefð er fyrir því að halda öskudaginn hátíðlegan á Akureyri og elsta áreiðanlega heimildlin fyrir því að kötturinn hafi verið sleginn úr tunnunni í bænum er frá árinu 1867.

Starfsmenn Norðurorku sjá um að halda þeirri hefð við, eins og þeir hafa gert árum saman; kötturinn verður sem sagt sleginn úr tunnunni á Ráðhústorgi, og hefst sú athöfn kl. 10.30. Síðan verður annar köttur sleginn úr annarri tunnu á Glerártorgi kl. 13.30. Kettir þurfa þó ekkert að óttast; langt er síðan þeim var skipt út fyrir eitthvað annað í þessu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert