Gríðarleg fjölgun umsókna eftir aðstoð

Hjálparstarf kirkjunnar
Hjálparstarf kirkjunnar

Umsóknum um aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar hefur fjölgað gríðarlega fyrstu tvo mánuði ársins. Í febrúar fjölgaði umsóknum um 300% en í febrúar í fyrra bárust 139 hjálparbeiðnir en í nýliðnum mánuði voru þær 410 talsins.

Flestir þeirra sem óska eftir aðstoð nú hafa misst vinnuna að undanförnu, þar á meðal miðaldra karlar og einstæðar mæður.Mjög margir þeirra eru að óska eftir aðstoð í fyrsta skipti. Í janúar fjölgaði umsóknunum um 152%, að því er fram kom á blaðamannafundi sem nú stendur yfir.

Alcoa stykir Hjálparstarf kirkjunnar

Á fundinum var kynntur styrkur Samfélagssjóðs Alcoa í Bandaríkjunum til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar og nemur styrkurinn 5,8 milljónum króna.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, afhenti  Jónasi Þóri Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar,fjárframlagið og sagði við það tækifæri að það væri mikilvægt að fyrirtæki sem væru aflögufær sýndu samfélagslega ábyrgð og létu fé af hendi rakna til að styðja þá sem farið hafa illa út úr þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir heiminn.

Alcoa hefði tekið þá stefnu að beina styrkjum sínum þetta árið sérstaklega til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna kreppunnar og til samfélagslegra verkefna sem nýttust sem flestum. Allir vissu hversu mikilvægt Hjálparstarf kirkjunnar væri og það væri ánægjuefni að geta stutt það góða starf.

Mikilvægt að breyta viðhorfi til samfélagslegrar aðstoðar

Jónas Þórir þakkaði fyrir góðan stuðning sem kæmi sér afar vel þar sem gríðarleg fjölgun hefði orðið á beiðnum um aðstoð. Fram kom hjá Jónasi að það væru þung spor fyrir marga að þurfa að leita sér aðstoðar og nauðsynlegt væri að þjóðfélagið breytti viðhorfi sínu til samfélagslegrar aðstoðar að núverandi efnahagsaðstæðum.

Atvinnuleysi á landsbyggðinni skilar sér í fjölgun umsókna

Fjölgunin kemur fram alls staðar á landinu og greinilegt er að aukið atvinnuleysi á landsbyggðinni er farið að skila sér í auknum umsóknum. Net Hjálparstarfsins er þéttriðið með samvinnu við presta um allt land, félagsráðgjafa á stofnunum og námsráðgjafa í framhaldsskólum.

„Hjálparstarf kirkjunnar leitast við að mæta nýjum og breyttum forsendum í þeirri aðstoð sem veitt er. Markmiðið er að veita faglega ráðgjöf og mæta grunnþörfum umsækjenda. Góður stuðningur Alcoa breytir sannarlega miklu,“ segir Jónas.

Á ekki fyrir fötum á börnin

Á blaðamannafundinum voru kynnt dæmi um einstaklinga sem hafa leitað sér aðstoðar:

Einstæð móðir á lágum launum gat látið laun og meðlag duga fyrir föstum mánaðarlegum greiðslum. Er í eignaríbúð með lán frá íbúðarlánasjóði, íbúð sem hún keypti fyrir nokkrum árum. Gat notað barnabætur til að standa straum að tómstundum barna og til fatakaupa núna fara barnabætur til að jafna út fasta reikninga sem hún er komin með í vanskil þegar barnabætur eru greiddar og á því ekki fyrir tómsdundum né fötum og hefði því þurft að draga börnin sín úr tómstundum ef ekki hefði komið til stuðningur héðan. Mikil vanlíðan að geta ekki veitt börnunum að vera í tómstundum

Leitaði eftir aðstoð þegar ekki voru til peningar fyrir mat

Maður á miðjum aldri missti vinnu í desember hefur unnið frá því að hann var unglingur. Konan hans með vinnu en lág laun. Þau eru með tvö börn í framhaldsskóla. Mjög erfið skref að koma til Hjálparstarfsins eftir aðstoð, en þar sem ekki var til matarbiti þá steig hann þessi erfiðu skerf.

Sér ekki fram á að geta greitt skólagjöld né bókakostnað fyrir unglinganna ef þeir fá ekki sumarvinnu. Er eftir á með alla reikninga heima og segist vera komin í mörg hundruð þúsund króna mínus.

Ekki möguleiki að láta enda ná saman

Fjölskyldufaðir sem er atvinnulaus var með eigið undirverktakafyrirtæki er að missa öll tæki vega vanskila, konan heima með fjögur börn og það fimmta á leiðinni.

Er á framfærslu hjá félagþjónustu þar sem ekki voru greidd tryggingargjöld. Geta ekki séð hvernig þau eiga að geta fætt og klætt börnin með 160.000 krónur á mánuði sem er greiðslan sem þau fá frá félagsþjónustunni. 

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert