Tekist á um Tónlistarhús

Umfjöllun fjárlaganefndar Alþingis um samkomulag ríkis og borgar um áframhald framkvæmda við tónlistar- og ráðstefnuhús, sem fram átti að fara í dag, var frestað fram yfir helgi.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, undirrituðu þann 19. febrúar viljayfirlýsingu um áframhald framkvæmda við Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfnina í Reykjavík. Samkvæmt samkomulaginu mun Austurhöfn-TR ehf., félag í eigu ríkis og borgar, taka verkefnið yfir. Allar áætlanir miðast við að ekki þurfi að koma til aukin framlög ríkis og borgar frá því sem ákveðið var á árinu 2004 þegar framkvæmdir og rekstur tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar voru boðin út.

Til stóð að ræða samkomulagið í fjárlaganefnd í dag og höfðu fulltrúar menntamálaráðuneytisins verið boðaðir á fund nefndarinnar. Samkvæmt heimildum mbl.is hafði fjárlaganefnd farið fram á að fá upplýsingar um það frá fulltrúum menntamálaráðuneytisins, hvort sú yfirlýsing sem skrifað var undir 19. febrúar væri í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins.

Undirliggjandi er sú gagnrýni sem fjárlaganefnd Alþingis hefur ítrekað sett fram á ákvarðanir einstakra ráðherra sem hafa skuldbundið ríkissjóð með undirskriftum, án þess að fyrir liggi samþykkt fjárveitingavaldsins.

Erindi vegna Tónlistarhússins kom inn á borð fjárlaganefndar Alþingis í desember, þegar fjárlög 2009 voru í vinnslu en erindinu var þá ýtt til hliðar.

Kostnaður við að ljúka byggingu Tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar  er a.m.k. 13,3 milljarðar króna. Allt að 600 störf skapast vegna framkvæmdarinnar, þar af 200 til 300 á verkstað. Verklok eru áætluð í janúar 2011 og stefnt er að því að taka húsið í notkun vorið 2011.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og borgar skuldbinda menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að uppbygging á öðrum reitum við tónlistar- og ráðstefnuhúsið verði flýtt og allra leiða verði leitað til þess að tryggja blómlegt atvinnulíf í næsta nágrenni. Austurhöfn-TR ehf. og dótturfélög þess munu vinna með skipulagsyfirvöldum borgarinnar að áframhaldandi þróun svæðisins og aðlögun þess að nærliggjandi uppbyggingarsvæðum.

Deilt er um þann kostnað sem af þessu getur hlotist en reikningurinn gæti slegið hátt í 20 milljarða króna. Þá þarf að reka nýja tónlistarhúsið en samkvæmt heimildum mbl.is gæti kostað allt að milljarð króna á ári að reka húsið.

Eins og áður segir var umræðu í fjárlaganefnd frestað en taka á málið upp á mánudag.

Tölvuteikning af Tónlistarhúsinu
Tölvuteikning af Tónlistarhúsinu mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert