Komið í veg fyrir komu hættulegs hóps

Norrænir vítisenglar hafa nokkrum sinnum reynt að komast hingað til …
Norrænir vítisenglar hafa nokkrum sinnum reynt að komast hingað til lands en verið vísað frá.

Upptöku tímabundins landamæraeftirlits í Leifsstöð er sérstaklega ætlað til að koma í veg fyrir væntanlega komu ákveðins hættulegs hóps frá og um nágrannalönd Íslands í Evrópu.

Samkvæmt heimildum mbl.is telur lögregla að vísbendingar séu um að félagar í Vítisenglum áformi að koma hingað til lands um helgina vegna vígslu nýs klúbbshúsnæðis vélhjólaklúbbsins Fáfnis í Hafnarfirði á laugardag.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði sögðu hins vegar í dag, að hvorki þau né lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefðu veitt heimild fyrir starfsemi Fáfnis þar í bæ en í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að Fáfnir væri að flytja inn í húsnæði í Hellnahrauni í Hafnarfirði.

Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins er vísað til sérstakrar ógnunar gegn allsherjarreglu og þjóðaröryggi vegna atburðar, sem áætlað er að muni eiga sér stað laugardaginn 7. mars. Það hafi leitt til þess að íslenska ríkisstjórnin hafi ákveðið að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum sínum dagana 5.-7. mars.

Tilkynning dómsmálaráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert