Svör við efnahagsvandanum

Í fjármálaráðuneytinu, nánar tiltekið í setustofu á þriðju hæðinni er að finna svör við efnahagsvanda Íslendinga ef einhver spyr.

Fyrir miðju setustofunnar  er fólki boðið uppá slík svör við hliðina á risastórum flatskjá, en einn þeirra auðmanna sem illar tungur segja að hafi sett landið á hausinn nefndi einmitt í blaðaviðtali að þetta heimilistæki og ásókn þjóðarinnar í það hefði kippt fótunum undan efnahagslífinu.

Bókahillan í setustofu ráðuneytisins er þó forvitnilegust en þar ægir saman Jack Higgins, Alistair McLean og Hallgrími Helgasyni. Þar hefur þó sérstaklega verið stillt upp bókinni Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Einhver gamansamur ráðuneytismaður hefur síðan límt á bókina miða þar sem stendur Hvernig getur Ísland orðið fátækasta land í heimi og því ljóst að hægt er að lesa bókina á tvo vegu eftir því hvaða ráðherra ræður í húsinu hverju sinni.

Skammt frá bókahillunni er síðan ruslafata, en vörumerkið tryggir gæðin. Allt sem fer í þá fötu kemur ekki aftur fyrir augu manna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka