Vilja kaupa tryggingafélag hér

Höfuðstöðvar Tryggingarfelagið Føroyar
Höfuðstöðvar Tryggingarfelagið Føroyar

Tryggingarfélagið Føroyar (TF) stefnir að því að hefja starfsemi á Íslandi fyrir árslok 2009. Edvard Heen, framkvæmdastjóri félagsins, tilkynnti þetta á fréttamannafundi í Reykjavík í dag. Hann sagði jafnframt að ráðamenn TF hefðu frá því snemma árs 2007 kannað möguleika á að koma inn á íslenska markaðinn. Veruleg hreyfing hafi komist á málið í ágúst 2008 og formleg ákvörðun um starfsemi á Íslandi síðan verið tekin á stjórnarfundi fyrirtækisins fyrir réttum tveimur vikum.

TF telur ákjósanlegast að kaupa tryggingafélag sem þegar er í rekstri á Íslandi. Þeir fjórir kostir, sem til greina koma af hálfu TF á Íslandi, eru að hefja beina sölu á vátryggingum TF á íslenskum markaði, stofna útibú TF, stofna íslenskt tryggingafélag í eigu TF eða kaupa starfandi, íslenskt tryggingafélag.

Álitlegasti kosturinn er sá að kaupa að fullu eða að hluta tryggingafélag í rekstri og ráðamenn TF sjá ýmsa möguleika í þeirri stöðu. Þeir hafa undanfarna mánuði rætt við fulltrúa tryggingafélaga, banka og íslenskra stjórnvalda og kynnt áhuga sinn og fyrirætlanir um fjárfestingar í tryggingaþjónustu á Íslandi.

Tryggingarfelagið Føroyar á að baki sjö áratuga sögu í tryggingastarfsemi, með rætur í tryggingum allt aftur á 19. öld. Félagið hefur 75-80% markaðshlutdeild í skaðatryggingum í Færeyjum og er mjög stöndugt fjárhagslega.

Það býður alhliða tryggingaþjónustu fyrir heimili, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga að líftryggingum þó undanskildum. Tryggingatakar hjá TF eru um 31.000, þar af um 23.000 fjölskyldur, einstaklingar og heimili, um 2.000 tengdir sjávarútvegi og um 6.000 tengdir öðrum atvinnurekstri. Tryggingatakarnir eru jafnframt eigendur félagsins því TF er gagnkvæmt tryggingafélag (e. mutual insurance company), að því er segir í tilkynningu.

Edvard Heen, framkvæmdastjóri TF, segir í tilkynningu að íslensk samfélag sé líkt því færeyska á margan hátt og því henti íslenskur markaður vel færeysku fyrirtæki til að starfa á. Færeyingar fylgist vel með efnahagsþrengingunum á Íslandi og séu þess fullvissir að Íslendingar muni vinna sig fljótt og vel út úr erfiðleikunum. TF sé komið til að veita Íslendingum tryggingaþjónustu til frambúðar og ákvörðunin eigi sér tveggja ára aðdraganda:

„Fjárfestingar erlendra fyrirtækja flýta fyrir því að íslenskt samfélag komist á skrið að nýju. Okkur er það því ánægjuefni að tilkynna áform um fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, sem vonandi stuðla að því að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar og tryggja störf sem fyrir eru eða skapa ný störf.

Við teljum að Íslendingar sækist framar öðru eftir því að skipta við fyrirtæki sem þeir geta treyst, þar með tryggingafélögum sem hugsa fyrst og fremst um tryggingar. Þess vegna teljum við að rými sé á íslenskum markaði fyrir félag með gildi, reynslu og fjárhagslegan styrk á borð við TF.

Síðast en ekki síst segjum við Íslendingum hið sama og við höfum sagt við heimafólk okkar í Færeyjum um árabil: TF er traust og ábyggilegt félag sem gott er að eiga að þegar eitthvað bjátar á. Við tryggjum öryggi," segir ennfremur í tilkynningu.

Heimasíða Tryggingarfelagsins Føroyar

Edvard Heen, framkvæmdastjóri Tryggingarfelagsins Føroyar
Edvard Heen, framkvæmdastjóri Tryggingarfelagsins Føroyar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert