Auka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Hlutfall framleiðslukostnaðar vegna kvikmyndagerðar á Íslandi sem heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði verður hækkað úr 14% í 20% samkvæmt frumvarpi Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra. Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í morgun.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að óhætt sé að fullyrða að íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfið hafi það umfram ýmis önnur kerfi að vera einfalt í sniðum. Þá hafi kerfið einnig þann kost fyrir erlenda aðila að ekki er gerð krafa um að íslenskur aðili sé tengdur verkefninu.

Þá segir að mikil þekking á kvikmyndagerð og þjónustu henni tengdri hafi skapast á Íslandi á undanförnum árum. Í því felist verðmæti sem ásamt íslenskri náttúru eiga að geta skapað sóknarfæri á sviði kvikmyndagerðar.

Þrátt fyrir þetta hafa erlendir kvikmyndaframleiðendur ekki sótt til Íslands nema í mjög takmörkuðum mæli undanfarin ár. Það er álit margra sem að kvikmyndaiðnaðinum standa að þessu megi breyta með hækkun endurgreiðsluhlutfalls samkvæmt endurgreiðslulögunum. Fyrir liggur að hækkun hlutfallsins úr 12% í 14% á árinu 2006 skilaði sér ekki í fjölgun erlendra verkefna. Samanburður við ýmis önnur lönd bendir til þess að endurgreiðsluhlutfallið hér á landi sé of lágt og með hliðsjón af því er lagt til að hlutfallið verði hækkað verulega eða í 20%.

Markmið þessara breytinga er að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í sumum öðrum ríkjum og laða að fleiri erlend verkefni. Sú styrking á samkeppnisstöðunni kæmi til viðbótar áhrifunum af um 65% lækkun á íslensku krónunni sem orðið hefur undanfarin tvö ár.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að jafnaði um 32 milljónir króna á ári eða úr 125 milljónum í 157 milljónir. Er þá reiknað með að umfang kvikmyndaframleiðslu á Íslandi verði svipað á næstu árum og það hefur verið frá árinu 2006 en ef umfangið eykst má búast við því að endurgreiðslurnar hækki að sama skapi. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Að einhverju marki gætu komið skatttekjur af framleiðslunni á móti en vegna mikils halla á ríkissjóði mun að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum.

Frá árinu 2001 hafa verið endurgreiddar rúmar 980 milljónir króna vegna 59 verkefna í kvikmyndagerð á Íslandi. Stærstur hlutinn eða rúmar 300 milljónir, voru endurgreiddar árið 2005.

Frumvarp iðnaðarráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert